Innlent

Stjórnvöld áhugalaus um að taka á utanvegaakstri

Hrund Þórsdóttir skrifar
Stöð 2 og Vísir hafa undanfarið sagt frá grófum dæmum um utanvegaakstur, meðal annars innan Friðlands að fjallabaki.

Sveinbjörn Halldórsson, formaður Samtaka útivistarfélaga og Ferðaklúbbsins 4x4, segir brotalöm á upplýsingagjöf um utanvegaakstur, einkum gagnvart erlendum ferðamönnum. Hann og samstarfsfólk hans hafi sent hugmyndir um vitundarvakningu til ráðherra og Umhverfisstofnunar, en ekki fengið nein viðbrögð.

„Við höfum sent pappíra til þeirra, hugmyndir og annað og óskað eftir umræðu um þetta en engin umræða hefur skapast. Fálæti stjórnvalda er algjört í þessu máli,“ segir Sveinbjörn.

Hugmyndirnar snúast um tvennt. Annars vegar svokallaða sjokk-herferð, þar sem skaði af utanvegaakstri yrði sýndur á myndrænan hátt og yfirfærður á þekkt kennileiti innanlands sem utan. Dæmi um þetta má sjá í meðfylgjandi myndskeiði. Hins vegar er lagt til að ferðamenn geti tekið krossapróf um akstur utan vega á netinu, áður en þeir aki bíl á Íslandi.

„Þeir fengju þá einhverjar sporslur í staðinn, það er þeir myndu hagnast á að taka þetta próf, fá kannski afslátt á bílaleigubílum, bensíni og ýmsu öðru.“

Sveinbjörn segir fyrirtæki taka vel í hugmyndirnar en að sterkan bakhjarl vanti, frjáls félagasamtök geti ekki staðið ein undir kostnaðinum.

Þér verður tíðrætt um erlenda ferðamenn, firrið þið íslenskt jeppafólki allri ábyrgð á utanvegaakstri?

„Að sjálfsögðu ekki, en það er stefna flestra útivistarmanna og þeirra sem koma að útivistargeiranum, að virða þau lög og þær reglur sem í landinu eru og þar er mjög skýrt kveðið á um að utanvegaakstur er bannaður,“ segir Sveinbjörn.

Utanvegaakstur er lögbrot og eins og nýleg dæmi sýna nema sektrargreiðslur vegna þeirra allt að hálfri milljón króna. Sveinbjörn segir rökrétt að þeir peningar fari í lagfæringar eftir skemmdarverkin en að þannig sé það ekki núna.

„Þessar greiðslur renna bara í ríkissjóð en landið er jafnskemmt fyrir það. Peningarnir fara bara í hítina og það er náttúrulega óþolandi.“


Tengdar fréttir

Ferðir seldar í lokað friðland

Ferðir eru auglýstar og seldar inn í Friðland að Fjallabaki þrátt fyrir lokanir á hálendinu. Skemmdir vegna utanvegaaksturs eru viðvarandi vandamál. Lögregla hyggur á eftirlit á landi og úr lofti vegna brotanna.

Stórfelld náttúruspjöll innan Friðlands að fjallabaki

Umfangsmikil spjöll voru unnin innan Friðlands að fjallabaki með utanvegaakstri nú fyrir helgina. Lögreglan á Hvolsvelli lýsir eftir vitnum og gætu þeir seku átt von á sekt upp á hálfa milljón króna.

Virða akstursbann að vettugi

Akstursbann inn á Friðland að Fjallabaki er að engu haft þrátt fyrir lokanir og upplýsingagjöf. Gróðurskemmdir vegna utanvegaaksturs eru miklar. Fyrirtæki auglýsa og selja ferðir þrátt fyrir lögboðnar lokanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×