Innlent

Stjórnvöld á rangri braut

Samúel Karl Ólason skrifar
Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.
Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB. Mynd/BSRB
Stjórnvöld eru á rangri braut með áformum um aukna einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni og aukinni kostnaðarþátttöku stórs hluta sjúklinga. Þetta sagði Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í ræðu sinni á 1. maí í Hafnarfirði í dag.

Hún sagði heilbrigðiskerfið hafa þurft að búa við fjársvelti og sagði nýja rannsókn gefa sterkar vísbendingar um að gjaldtaka í heilbrigðiskerfi hefti aðgang tiltekinna hópa að þjónustunni. Niðurstöðurnar sýni að of stór hópur Íslendinga fresti því að leita sér læknisaðstoðar, jafnvel þó fólk telji sig þurfa á slíkri þjónustu að halda.

„Stöðugt fleiri nefna kostnað sem ástæðu þess að þeir leita ekki til læknis. Við slíkt ástand verður ekki unað,“ sagði Elín Björg.

Samkvæmt tilkynningu frá BSRB benti hún á að stjórnvöld hafi nú kynnt tvennar breytingar á heilbrigðiskerfinu. Annars vegar þak á greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu, sem mun að óbreyttu kalla á stóraukna gjaldtöku af stórum hluta þjóðarinnar. Hins vegar ræddi hún um þá ákvörðun stjórnvalda að þrjár nýjar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu verði einkareknar.

„Ég hef ekki orðið vör við að fólkið í landinu sé að biðja um aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og því síður að það óski eftir að greiða meira fyrir læknisþjónustuna,“ sagði Elín.

„Alþjóðlegar samanburðarrannsóknir sýna að félagsleg heilbrigðiskerfi eru skilvirkari en önnur heilbrigðiskerfi. Þau skila, með öðrum orðum, almenningi betri lýðheilsu fyrir lægri heildarkostnað. Þessar niðurstöður segja okkur að stjórnvöld eru á rangri braut. Gjaldfrjáls aðgangur allra að grunnþjónustunni verður að vera tryggður og það er eitt mikilvægasta verkefni framtíðarinnar að sjá til þess að svo verði.“

Óásættanlegt að nota skattaskjól

Auk þess gagnrýndi Elín harðlega þá sem fela eigur sínar í skattaskjólum, þar sem megin tilgangurinn sé að fela eignarhald og komast hjá því að greiða skatta.

„Við sættum okkur ekki við að þeir sem mest hafa geti ráðið því sjálfir hvort þeir ætla að greiða skatta til velferðarsamfélagsins, með okkur hinum, eða fela fjármuni sína í skattaskjólum á sólríkum Suðurhafseyjum,“ sagði Elín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×