Fastir pennar

Stjórnsýslusögur

Þorvaldur Gylfason skrifar
Stjórnsýsla skiptir máli bæði í einkarekstri og opinberu lífi. Öll þekkjum við þetta úr leik og starfi. Við væntum þess að hæfnissjónarmið ráði vali manna í landsliðið í knattspyrnu, stöður hljóðfæraleikara í sinfóníuhljómsveitinni, prófessorsstöður í háskólunum og þannig áfram. Við vitum hvernig fer ef viðtekin hæfnissjónarmið eru látin víkja fyrir klíkuskap. Þessi regla – að hæfni sitji í fyrirrúmi – hefur ævinlega verið virt á vettvangi íþróttanna hér heima. Þessi almenna hæfnisregla þurfti lengri tíma til að ryðja sér til rúms á ýmsum öðrum vettvangi og á sums staðar enn langt í land, bæði í einkarekstri og opinberri stjórnsýslu.

Reynslan að utan

Rannsóknir sýna að árangur fyrirtækja í rekstri ræðst jafnan að hluta af hæfni stjórnendanna. Góð fyrirtæki kappkosta því að velja til starfa sem hæfasta stjórnarmenn af báðum kynjum með fjölbreytta reynslu og þekkingu víðs vegar að. Sex af hverjum sjö stjórnarmönnum í þýzkum stórfyrirtækjum hafa lokið doktorsprófi. Víða hafa menn þrátt fyrir þessa vitneskju kastað til höndum við val á stjórnarmönnum í fyrirtækjum. Bandarískir forstjórar sitja margir í stjórnum hver hjá öðrum. Stjórnir fyrirtækjanna hegða sér margar eins og klúbbar eða klíkur. Þetta er hluti skýringarinnar á því að forstjóralaun í Bandaríkjunum hafa rokið upp úr öllu valdi. Laun meðalforstjóra í bandarískum stórfyrirtækjum voru 30-föld laun óbreyttra starfsmanna 1960-1970. Árið 2008 voru forstjóralaunin komin upp í 270-föld laun óbreyttra starfsmanna. Engan þarf því að undra að bílafyrirtækin í Detroit komust í þrot fyrir fáeinum árum og voru þjóðnýtt um skeið. Bandarískur kapítalismi snerist upp í andhverfu sína af völdum óhæfra og óhemju gráðugra stjórnenda.

Reynslan frá Bandaríkjunum beinir athyglinni að einhæfu mannvali í stjórnum margra íslenzkra fyrirtækja. Hvati innlendra fyrirtækja til að velja sér hæfa stjórnendur með fjölbreytta reynslu og þekkingu er af ýmsum ástæðum veikari en hann gæti verið, m.a. af því að viðskiptabankarnir þurfa ekki frekar en endranær að sæta erlendri samkeppni og geta því haldið uppi slökum rekstri í eigin ranni og meðal vel tengdra viðskiptavina. Þetta er gamall vandi sem ennþá eimir eftir af þrátt fyrir hrunið. Iðnaðarbankinn, Verzlunarbankinn og Alþýðubankinn voru settir á laggirnar á sínum tíma vegna dekurs Landsbankans, Búnaðarbankans og Útvegsbankans við forgangsfyrirtæki. Bankarnir fara sem fyrr sínu fram, en geta þeirra til að hafa fé af erlendum viðskiptavinum eins og þeir gerðu fyrir hrun hefur skerzt að mun þar eð útlendingar eru nú varir um sig gagnvart íslenzkum bönkum.

Bankaráð Seðlabankans

Lög kveða á um ábyrgð og skyldur stjórnarmanna í fyrirtækjum. Sjaldgæft er þó að á slíka ábyrgð sé látið reyna. Látum eitt dæmi duga. Í lögum um Seðlabanka Íslands frá 2001 segir að bankaráðið skuli m.a. „Hafa eftirlit með eignum og rekstri bankans og staðfesta ákvarðanir um meiri háttar fjárfestingar.“ Þetta er bókstafur laganna. Andinn að baki bókstafnum er að bankaráðinu sem Alþingi skipar beri að gæta hagsmuna almennings í málum bankans.

Seðlabankinn varð tæknilega gjaldþrota í hruninu. Endurfjármögnun bankans kostaði skattgreiðendur svipaða fjárhæð og fjármögnun nýju bankanna sem reistir voru á rústum gömlu bankanna. Hvor útgjaldaliður fyrir sig nam um sjöttungi landsframleiðslunnar eða þriðjungi samtals. Fyrir liggur vitnisburður hátt settra embættismanna Seðlabankans fyrir rannsóknarnefnd Alþingis og fyrir Landsdómi. Þar báru þeir að Seðlabankinn hefði vitað strax 2006 að bönkunum var ekki viðbjargandi. Aðalhagfræðingur bankans, nú aðstoðarbankastjóri, sagði fyrir Landsdómi: „Ef koma hefði átt í veg fyrir fall bankanna hefði líklega orðið að grípa til aðgerða á árinu 2005.“ Annar hátt settur starfsmaður Seðlabankans líkti háttsemi bankanna við fjárglæfra Bernie Madoff í Bandaríkjunum (hann fékk 150 ár).

Eigi að síður hélt Seðlabankinn áfram að lána bönkunum mikið fé í tvö ár enn, 2006-2008. Engin viðhlítandi skýring hefur enn verið gefin á því ráðslagi. Engin kunn gögn benda til að bankaráðið hafi látið málið til sín taka fyrir hönd almennings svo sem lögin bjóða. Rannsóknarnefnd Alþingis hirti jafnvel ekki um að boða formann bankaráðsins Halldór Blöndal fv. ráðherra og forseta Alþingis í viðtal til að fræðast um hvernig bankaráðið rækti lagaskyldu sína. Engin kunn gögn benda til að bankaráð Seðlabankans frá hruni eða bankastjórnin hafi reynt að svipta hulunni af því sem gerðist í bankanum í aðdraganda hrunsins. Seðlabankinn liggur enn á símtalinu dýra.






×