Innlent

Stjórnendur Hreint lofa bót og betrun

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Stjórnendur Landsspítalans segjast ekki líða brot á kjarasamningum starfsfólks við ræstingar en vísa óánægju ræstingafólks og verktaka að öðru leyti á stéttarfélagið og fyrirtækið Hreint. Forsvarsmenn Eflingar og stjórnendur fyrirtækisins hittust á fundi síðdegis þar sem farið var yfir það sem miður hefur farið í kjörum og aðbúnaði starfsfólksins.

Í ráðningarsamningi Hreint og ræstingarfólksins á Landsspítalanum kemur fram að það megi kalla fólk til vinnu hvenær sem hentar. Í ljós hefur komið að fólk vinnur tólf daga í röð og fær tveggja daga frí. Sigurður Bessason formaður Eflingar segir fundinn hafa verið gagnlegan í samtali við Stöð 2 en komið hafi verið í ljós fjölmörg atriði sem eru í ólagi. Fyrirtækið hafi hinsvegar lýst yfir fullum vilja til að leiðrétta það sem aflaga hafi farið. Þeir ætli að leiðrétta alla launaseðla frá því þeir komu að verkinu í samræmi við ábendingar Eflingar. Félagið ætli síðan að fara yfir alla launaseðla í framhaldinu og ganga úr skugga um að leiðréttingar hafi skilað sér.

Starfsmenn kvarta undan óþrifnaði og 12 Pólverjar sem vinna verk sem 35 unnu áður eru að sligast undan vinnuálagi. Ingólfur Þórisson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landsspítalans segir við Stöð 2 að sú stefna hafi verið tekin eftir hrun að draga úr hreinlæti á spítalanum til að spara peninga. Ekki er fyrirsjáanlegt að það breytist miðað við fjárveitingar. Danskt fyrirtæki á að gera úttekt á hreinlæti á spítalanum og hvort það standist alþjóðlega staðla og kröfur til sjúkrastofnana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×