Viðskipti innlent

Stjórnendur bjartsýnir á horfur íslensks hagkerfis

Stefán Árni Pálsson skrifar
Frá fundi Samtaka atvinnulífsins 2011.
Frá fundi Samtaka atvinnulífsins 2011. vísir/VILHELM
Tæplega 75 prósent íslenskra stjórnenda telja að íslenska hagkerfið muni vaxa á næstu tólf mánuðum. 

Þetta kemur fram í könnum sem MMR stóð fyrir á tímabilinu 9. til 14. október 2014 um viðhorf stjórnenda íslenskra fyrirtækja til horfa í íslensku hagkerfi sem og mikilvægra þátta í rekstarumhverfi þeirra eigin fyrirtækja til næstu 12 mánaða.

Í júlí á þessu ári sögðust 81,1% stjórnenda telja að hagkerfið myndi vaxa og í desember 2013 sögðust 58,9% telja að hagkerfið myndi vaxa á næstu 12 mánuðum.

Meirihluti stjórnenda er bjartsýnn á aukna veltu og arðsemi síns fyrirtækisins á næstu 12 mánuðum. Af þeim sem tóku afstöðu nú töldu 68,4% að velta myndi aukast á næstu 12 mánuðum og 55,6% töldu að arðsemi myndi aukast. Í desember 2013 sögðust 60,7% stjórnenda telja að velta myndi aukast og 43,7% sögðust telja að arðsemi síns fyrirtækis myndi aukast á næstu 12 mánuðum.

Meiri bjartsýni ríkir meðal stjórnenda á aukna samkeppnishæfni og aukna eftirspurn eftir vöru/þjónustu síns fyrirtækis á næstu 12 mánuðum. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 51,4% stjórnenda telja að samkeppnishæfni síns fyrirtækis myndi aukast á næstu 12 mánuðum, borið saman við 45,0% í júlí 2014. 68,7% sögðust telja að eftirspurn eftir vörum/þjónustu fyrirtækisins myndi aukast á næstu 12 mánuðum, borið saman við 55,0% í desember 2013.

Tæpur þriðjungur stjórnenda taldi að starfsmönnum muni fjölga og 69% stjórnenda taldi að launakostnaður muni aukast.

Úrtakið var stjórnendur í fyrirtækjum á Íslandi þ.e.a.s  forstjórar, framkvæmda-, fjármála- og markaðsstjórar. Svarfjöldin var 602 einstaklingar.

mynd/mmr





Fleiri fréttir

Sjá meira


×