Innlent

Stjórnarmaður í GR stendur með „risaeðlunum“ á Muirfield

Jakob Bjarnar skrifar
Karlarnir á Muirfield fá óvæntan stuðning frá Íslandi -- sem löngum hefur verið talið Eldorado femínismans. Margeir, stjórnarmaður í GR, sendir stuðningskveðju yfir hafið.
Karlarnir á Muirfield fá óvæntan stuðning frá Íslandi -- sem löngum hefur verið talið Eldorado femínismans. Margeir, stjórnarmaður í GR, sendir stuðningskveðju yfir hafið.
Verulegt uppnám varð nýverið í golfheiminum þegar hinn forni og frægi golfklúbbur Muirfield á Skotlandi, vöggu golfsins, ákvað að samþykkja ekki tillögu þess efnis að konum yrði veitt innganga í klúbbinn.

Klúbburinn hefur í kjölfarið verið úthrópaður, stjórnin sögð samanstanda af risaeðlum sem þjökuð er af inngróinni karlrembu. Þetta hefur þegar haft þær afleiðingar að R&A, yfirstjórn golfmála, hefur tekið Muirfield af út af lista yfir þá klúbba sem hýsa alþjóðlegar mótaraðir; „Open rota“, en á Muirfield hefur fjöldi þekktra móta verið haldin. Fordæmingarnar eru miklar og víðtækar.

Óvæntur stuðningur frá Íslandi

En, stjórn golfklúbbsins á Muirfield á sér hauk í horni á Íslandi, nefnilega hann Margeir Vilhjálmsson, sem er stjórnarmaður í Golfklúbbi Reykjavíkur. Hann skrifar grein á Kylfingur.is þar sem hann lýsir yfir fullum stuðningi við stjórnina þar, undir yfirsögninni: „Karlmenn sem standa í lappirnar“.

Á Muirfield skipta hefðirnar öllu máli. Þessi klúbbur er nú tæplega 300 ára gamall og nútíminn gargar á hann.
„Jafnrétti er ekki búið til með því að troða konum inn í rótgróna karlaklúbba, eða troða körlum inn í rótgrónar kvenhreyfingar. Það er gott að kynin eigi griðastaði hvort fyrir öðru. Lítum bara á Hjallastefnuna. Strákar eru strákar og stelpur eru stelpur,“ segir í lokaorðum pistilsins: „Ég er ánægður með mína menn í The Honourable Company of Edinburgh Golfers. Karlmenn sem standa í lappirnar og láta pólitíska rétthugsun lönd og leið.“

Þetta má heita nokkuð óvæntur stuðningur frá Íslandi, sem þekkt er fyrir að vera Eldóradó femínisma á veraldarvísu.

Margir sammála Margeiri en þora ekki að lýsa því yfir

Pistill Margeirs er skemmtilegur en hann rekur í stuttu máli sögu The Honourable Company of Edinburgh Golfers, sögu sem rekja má allt aftur til ársins 1744 sem gerir klúbbinn 272 í ár. Þarna skipta hefðirnar öllu máli.

Margeir segist, í samtali við Vísi, hafa fengið margvísleg viðbrögð við pistlinum, í einkaskilaboðum og í símtölum. Og það sem meira er, viðbrögðin eru á eina leið þó menn vilji ekki lýsa þeim skoðunum sínum opinberlega.

Þeir á Muirfield eiga hauk í horni á Íslandi sem er Margeir Vilhjálmsson, stjórnarmaður í GR.visir/Arnþór
„Já, menn eru mjög ánægðir og alveg sammála. En þetta er mál sem menn vilja ekkert endilega opinberlega taka stöðu með. Það eru mörg mál þar sem R og A sjálfir þyrftu að standa sig miklu betur gagnvart konum og því eiginlega lélegur brandari að þeir séu að refsa Muirfield mönnum.“

Konur eiga ekkert erindi í karlaklúbba

Margeir bendir til dæmis í því sambandi að bara það að R&A reki ekki Open-mót fyrir konur ætti að fá fólk til að staldra við. Það sé mikil hræsni innbyggð í þessa umræðu.

„Ég er mikill jafnréttissinni en mér finnst það að vilja setja konur inn i kallaklúbba og öfugt ekki vera mikilvægt í þeirri baráttu,“ segir Margeir.

En, er virkilega enginn að senda þér tóninn vegna þessarar eindregnu afstöðu þinni?

„Nei, það er enginn að hrauna yfir mig,“ segir Margeir sem nú veltir því fyrir sér að láta þýða pistil sinn yfir á ensku og senda þeim Muirfield-mönnum yfir hafið, en þeir eiga nú mjög undir högg að sækja vegna þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×