Innlent

Stjórnarandstæðingar undrast dagskrá þingsins: „Þetta er nú algjörlega absúrd“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þingmenn stjórnarandstöðunnar undruðust dagskrá Alþingis í dag.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar undruðust dagskrá Alþingis í dag. Vísir
„Þetta er nú algjörlega absúrd að vera hér á þingfundi þar sem eina dagskrármálið er störf þingsins,“ sagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir á þingi í dag er hún undraðist það að það eina sem væri á dagskrá Alþingis í dag væri dagskrárliðurinn störf þingsins.

Greiða átti atkvæði um þrjú mál en var atkvæðagreiðslu frestað vegna fjarvista þingmanna. Því var dagskrárliðurinn störf þingsins það eina sem eftir var á dagskrá.

„Okkur var sagt að við yrðum að vera hér. Það væri svo áríðandi vegna allra þeirra stóru mála sem biðu. Það fer lítið fyrir þeim,“ bætti Sigríður Ingibjörg við og vísaði þar til orða stjórnarliða um að koma þyrfti mikilvægum málum í gegnum þingið áður en kosið yrði í haust.

Undir þetta tók Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar og sagði hann erfitt fyrir stjórnarandstöðuna að stunda málþóf ef ekkert væri til þess að ræða á þingi.

„Þetta undrar mann eftir yfirlýsingarnar um það að hér myndu stjórnarflokkarnir eiga í erfiðleikum að koma fram málum vegna málþófs stjórnarandstöðunnar,“ sagði Helgi. „Þó að ég feginn vildi stunda málþóf þá reynist það erfitt ef ekkert þingmál er á dagskrá fundarins.“

Sagðist Helgi þó ekki ætla að kvarta yfir því sem hann sagði vera aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar.

„Ég ætla ekki að kvarta undan því að ríkisstjórn sem ég er fullkomnlega ósammála í mörgum og veigamiklum málum sé ekki að flytja inn hér mál.“

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri Grænna, gerði dagskrá þingsins einnig að umtalsefni á Facebook-síðu sinni og sagði hún núverandi þinghald verða orðið að dellu og boða ætti til kosninga strax.

„Nú liggur fyrir að fresta þarf atkvæðagreiðslum fram yfir helgi vegna fjarvista þingmanna. Þannig verður þingfundurinn hálftíma langur sem er örugglega nánast einsdæmi og verður sífellt ljósara hversu mikil della þetta þinghald er orðið. Ekkert vit í öðru en að senda þingið heim strax og boða til kosninga.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×