Viðskipti innlent

Stjórn Strætó hafnar alfarið fullyrðingum um spillingu

Atli Ísleifsson skrifar
Stjórn Strætó bs. mun á næstunni fara yfir forsendur og niðurstöður dómsins með lögmönnum byggðasamlagsins.
Stjórn Strætó bs. mun á næstunni fara yfir forsendur og niðurstöður dómsins með lögmönnum byggðasamlagsins. Vísir/GVA
Stjórn Strætó hafnar alfarið fullyrðingum Þóris Garðarssonar, stjórnarformanns Iceland Excursion Allrahanda, um að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur endurspegli spillingu í stjórn byggðasamlagsins.

Héraðsdómur hefur gert Strætó að greiða Iceland Excursion Allrahanda ehf. 100 milljónir króna í skaðabætur fyrir að fara ekki eftir eigin útboðsskilmálum, en Allrahanda stefndi Strætó vegna niðurstöðu lokaðs útboðs árið 2010.

Í fréttatilkynningu frá Jóhannesi Rúnarssyni, framkvæmdastjóra Strætó, segir að hið rétta sé að allar ákvarðanir í innkaupaferlinu hafi verið teknar í samráði við sérfróðan umsjónaraðila útboðsins og sami mælikvarði verið notaður við mat á strætisvögnum allra þátttakenda. „Þá lauk innkaupaferlinu með því að samið var við lægstbjóðanda í útboðinu til samræmis við yfirlýstan tilgang laganna og markmið byggðasamlagsins um aukna hagkvæmni í rekstri.“

Í tilkynningunni segir jafnframt að stjórn Strætó muni á næstunni fara yfir forsendur og niðurstöður dómsins með lögmönnum byggðasamlagsins, en ljóst sé að niðurstaða héraðsdóms er ekki hafin yfir gagnrýni. „Stjórnin mun ekki tjá sig efnislega um niðurstöðu dómsins fyrr en að því loknu.“

Fréttatilkynning Strætó í heild sinni:

Fimmtudaginn 16. júní sl. kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm í máli sem Iceland Excursion Allrahanda ehf. höfðaði á hendur Strætó bs. vegna meintra brota byggðasamlagsins gegn lögum um opinber innkaup við framkvæmd forvals og lokaðs útboðs um akstur strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2010.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn jafnræði bjóðenda með því að Hagvögnum hf. var heimiluð þátttaka í hinu lokaða útboði vegna frávika á framboðnum strætisvögnum fyrirtækisins frá útboðsgögnum. Þar sem Hagvagnar hf. áttu lægsta tilboð í tiltekna verkhluta í útboðinu var gengið til samninga við fyrirtækið um aksturinn.

Stjórn Strætó bs. mun á næstunni fara yfir forsendur og niðurstöður dómsins með lögmönnum byggðasamlagsins, en ljóst er að niðurstaða héraðsdóms er ekki hafin yfir gagnrýni. Stjórnin mun ekki tjá sig efnislega um niðurstöðu dómsins fyrr en að því loknu.

Að gefnu tilefni hafnar stjórn Strætó þó alfarið fullyrðingum stjórnarformanns Iceland Excursion Allrahanda um að dómurinn endurspegli spillingu í stjórn byggðasamlagsins. Hið rétta er að allar ákvarðanir í innkaupaferlinu voru teknar í samráði við sérfróðan umsjónaraðila útboðsins og sami mælikvarði var notaður við mat á strætisvögnum allra þátttakenda. Þá lauk innkaupaferlinu með því að samið var við lægstbjóðanda í útboðinu til samræmis við yfirlýstan tilgang laganna og markmið byggðasamlagsins um aukna hagkvæmni í rekstri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×