Innlent

Stjórn skáta segir gagnrýni ótímabæra

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Frá stjórnarfundinum í gær.
Frá stjórnarfundinum í gær. vísir/ernir
Miklar væringar hafa verið innan skátahreyfingarinnar undanfarið. Milli jóla og nýárs lýstu fyrrverandi skátahöfðingi og núverandi stjórnarmaður hjá Bandalagi íslenskra skáta, Ólafur Proppé, vantrausti á bæði Braga Björnsson skátahöfðingja og Fríði Finnu Sigurðardóttur varaskátahöfðingja. Það gerði Ólafur í bréfi sem hann kvað sér „siðferðislega skylt“ að senda til félagsforingja og annarra leiðtoga skátastarfs á landinu.

Í bréfinu lýsir Ólafur aðdraganda þess að meirihluti stjórnar Bandalags íslenskra skáta ákvað 13. desember að segja Hermanni Sigurðssyni, framkvæmdastjóra bandalagsins, upp störfum.

„Allt málið tengist langvarandi samskiptavanda Braga og Hermanns. Á þeim samskiptavanda ber Bragi meginábyrgð sem gerandi og sem leiðtogi hreyfingarinnar. Ástæður Braga og meirihluta stjórnar BÍS fyrir uppsögninni eru, að mínu mati, léttvægar og byggðar á sandi,“ segir Ólafur meðal annars í bréfi sínu.

Ólafur bendir einnig á að á árinu sé fram undan stærsti viðburður sem skátar á Íslandi hafa staðið frammi fyrir, sem er afar stórt alþjóðlegt skátamót hérlendis. „Er hætt við að umræddur gerningur meirihluta stjórnar á vafasömum forsendum geti haft neikvæð áhrif á framkvæmd þessa stóra viðburðar og skátastarf á Íslandi á næstu mánuðum.“

Hafdís Bára Kristmundsdóttir, félagsforingi Vífils í Garðabæ, boðaði til opins fundar um málefni skátahöfðingjans síðastliðið mánudagskvöld. Þar samþykktu 45 fundarmenn vantraust á Braga og Fríði Finnu og skoruðu á þau að segja af sér „vegna framgöngu þeirra í eineltismáli innan skátafélagsins Ægisbúa og við brottvikningu framkvæmdastjóra BÍS“. Eineltismálið sem vísað er til tengist bróður skátahöfðingjans sem sagður er vera gerandi í því máli.

Enn fremur skoraði fundurinn á stjórnir skátafélaga að krefjast aukaskátaþings til að fjalla um vantraustsmálið.

Stjórn BÍS fundaði í gærkvöld en mál þetta var þar ekki á dagskrá. Í tilkynningu sem stjórnin sendi til Fréttablaðsins skömmu áður en það fór í prentun kom fram að efni fundarins hafi verið undirbúningur félagsforingjafundar sem er á dagskrá 14. janúar.

„Okkur þykir miður að þeir sem skrifuðu undir yfirlýsinguna skuli ekki hafa gefið sér tíma til að bíða eftir þeim fundi þar sem fyrir liggur að það á að fara yfir gögnin í kringum starfslok framkvæmdastjórans og meðferð eineltismála á fundinum,“ segir enn fremur í tilkynningunni. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×