Enski boltinn

Stjóri Wolfsburg: Viljum ekki selja De Bruyne

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
De Bruyne lagði upp mark Wolfsburg í sigrinum á Bayern München í gær.
De Bruyne lagði upp mark Wolfsburg í sigrinum á Bayern München í gær. vísir/getty
Dieter Hecking, knattspyrnustjóri Wolfsburg, er bjartsýnn á að Kevin de Bruyne haldi kyrru fyrir hjá þýska liðinu sem hann spilaði svo vel fyrir á síðasta tímabili.

De Bruyne var stoðsendingakóngur þýsku úrvalsdeildarinnar í fyrra en Belginn hefur verið sterklega orðaður við Manchester City í sumar.

"Við erum með marga góða leikmenn sem vekja athygli annarra liða. Það er ókosturinn við velgengni," sagði Hecking eftir sigur Wolfsburg á Bayern München í leiknum um þýska Ofurbikarinn í gær.

De Bruyne lagði upp jöfnunarmark Wolfsburg fyrir Nicklas Bendtner og skoraði svo úr sinni spyrnu í vítaspyrnukeppninni sem Wolfsburg vann 5-4.

"Kevin sá í dag hversu langt við getum náð sem lið. Við viljum ekki selja hann og ég býst við að hann verði áfram í okkar herbúðum," bætti Hecking við en undir hans stjórn varð Wolfsburg í 2. sæti þýsku deildarinnar á síðasta tímabili, auk þess sem liðið varð bikarmeistari eftir sigur á Borussia Dortmund í úrslitaleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×