Enski boltinn

Stjóri Watford: Ég sagði Costa að ég elska hann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Félagarnir ræða saman.
Félagarnir ræða saman. vísir/getty
Quique Sánchez Flores, knattspyrnustjóri Watford, átti fallega stund með Diego Costa, framherja Chelsea, eftir markalaust jafntefli liðanna í 24. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í gærkvöldi.

Spánverjinn faðmaði og kyssti samlanda sinn sem lét öllum illum látum í fyrri hálfleik og fiskaði gul spjöld á tvo varnarmenn Watford og fékk eitt sjálfur.

Undir lok fyrri hálfleiks ætlaði allt að sjóða upp úr þegar Costa ýtti Juan Carlos Paredes, bakverði Watford, í jörðina, en Paredes var nú ekki saklaus því hann hafði skömmu áður sparkað Costa niður.

Áður en að allt varð vitlaust stökk Sánchez Flores til og faðmaði Costa við hliðarlínuna og róaði hann niður. Þeir þekkjast vel eftir að Sánchez Flores þjálfaði framherjann hjá Atlético Madríd fyrir fimm árum síðan.

„Ég skil Costa því ég þjálfaði hann og ég veit að hann vill berjast á móti öllum leikmönnum. Það gerðist samt ekki neitt,“ sagði Quique Sánchez Flores eftir leikinn.

Aðspurður hvað fór þeirra á milli í leiks lok svaraði Spánverjinn: „Ég sagði Costa að ég elska hann!“

„Ég elska karakterinn. Ég vil frekar að mínir menn séu svona karakterar en einhverjir ísmenn á vellinum. Þegar þú ert þjálfari viltu vera með svona mann inn á vellinum. Það er alveg frábært,“ sagði Quique Sánchez Flores.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×