Enski boltinn

Stjóri Gylfa alveg búinn að fá sig full saddan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Garry Monk.
Garry Monk. Vísir/Getty
Garry Monk, knattspyrnustjóri Swansea City, er alveg búinn að fá nóg af slæmum ákvörðunum dómara í leikjum liðsins að undanförnu og hann hefur nú óskað eftir fundi með Mike Riley, yfirmanni dómara í ensku úrvalsdeildinni.

Monk og Mike Riley ræða saman á föstudaginn en þar mun knattspyrnustjóri Gylfa Þórs Sigurðssonar örugglega ræða bæði vítið sem Swansea fékk á sig í 1-2 tapi á móti Stoke 19. október síðastliðinn sem og rauða spjaldið sem Federico Fernandez fékk á Anfield í gærkvöldi.

„Þetta er enn eitt atriðið sem bættist á listann," sagði Garry Monk eftir tapið á móti Liverpool í gær en Swansea komst í 1-0 í leiknum.

Federico Fernandez fékk beint rautt spjald fyrir tæklingu á Philippe Coutinho en flestir hefðu ekki einu sinni gefið aukaspyrnu hvað þá gult spjald.

„Þetta var greinilega ekki rautt spjald. Það er ekki gott að dómari telji ástæðu til að reka útaf fyrir svona. Hann er samt góður dómari og vonandi það skynsamur að draga þetta rauða spjald til baka," sagði Garry Monk.

Monk hvíldi Gylfa Þór Sigurðsson í leiknum í gærkvöldi en íslenski landsliðsmaðurinn fór meiddur af velli á móti Leicester í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×