Enski boltinn

Stjóri Gylfa: Verðum vonandi ekki að tala um fallbaráttu eftir nokkrar vikur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bob Bradley, knattspyrnustjóri Swansea City, stýrir Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í þriðja sinn á mánudaginn þegar liðið heimsækir Stoke á Britania.

Swansea náði í sínu fyrstu stig undir stjórn Bob Bradley um síðustu helgi þegar liðið gerði markalaust jafntefli á móti Watford á heimavelli. Swansea tapaði 3-2 á móti Arsenal í fyrsta leik sínum undir stjórn Bob Bradley.

Þetta hefur verið erfitt tímabil fyrir Gylfa Þór Sigurðsson og félaga en liðið hefur ekki fagnað sigri síðan í fyrstu umferð og situr nú í næstneðsta sæti deildarinnar.

Stoke er fjórum stigum og þremur sætum ofar í töflunni. Swansea er með 5 stig en Stoke er með 9 stig.  

„Við verðum vonandi ekki að tala um fallbaráttu eftir nokkrar vikur,“ sagði Bob Bradley á blaðamannafundi í morgun.

„Við vitum það að við verðum að halda áfram að vinna í því að nota jákvæðu hlutina til að safna fleiri stigum. Það er samt mikil vinna eftir ennþá. Vonir okkar standa til þess að öll þessi vinna okkar fari að skila sér í betri úrslitum,“ sagði Bob Bradley.

Næstu deildarleikir Swansea eftir leikinn við Stoke eru á móti Manchester United, Everton, Crystal Palace og Tottenham. Það er landsleikjahlé eftir leikinn við United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×