Enski boltinn

Stjóralausir Leicester-menn unnu fyrsta sigurinn í tvo mánuði

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Okazaki, hér til vinstri, skoraði sigurmark Leicester eftir góðan undirbúning frá Mahrez.
Okazaki, hér til vinstri, skoraði sigurmark Leicester eftir góðan undirbúning frá Mahrez. Vísir/Getty
Leicester sótti þrjú stig til Wales í 2-1 sigri gegn Swansea í dag en þetta var fyrsti leikur liðsins eftir að Craig Shakespeare var sagt upp störfum sem þjálfari liðsins á dögunum.

Leicester var aðeins búið að vinna einn leik af átta fyrir leiki dagsins og leika sex leiki í röð án sigurs þegar ákvörðun var tekin að reka Shakespeare fyrr í vikunni.

Federico Fernandez, miðvörður Swansea, varð fyrir því óláni að koma gestunum yfir með sjálfsmarki en í upphafi seinni hálfleiks bætti Shinji Okazaki við marki fyrir Leicester sem reyndist vera sigurmarkið. Alfie Mawson náði að minnka muninn fyrir heimamenn en lengra komust þeir ekki.

Á sama tíma vann Newcastle 1-0 sigur gegn Crystal Palace á heimavelli en spænski miðjumaðurinn Mikel Merino skoraði eina mark leiksins undir lok venjulegs leiktíma.

Var þetta fyrsta mark hans fyrir félagið en félagið gekk nýlega frá kaupunum á Merino eftir góða frammistöðu í fyrstu leikjum tímabilsins sem lánsmaður frá Dortmund í Þýskalandi.

Þá sótti Bournemouth þrjú stig til Stoke í 2-1 sigri í fallbaráttuslag í dag en þetta var aðeins annar sigur Bournemouth á tímabilinu og sá fyrsti á útivelli.

Andrew Surman og Junior Stanislas komu Bournemouth yfir með tveimur mörkum á stuttum tíma í fyrri hálfleik en Mame Diouf náði aðeins að laga stöðuna fyrir Stoke sem situr í fallsæti með átta stig eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×