Íslenski boltinn

Stjarnan og Grindavík skildu jöfn í Kórnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hilmar Árni Halldórsson var í byrjunarliði Stjörnunnar í kvöld.
Hilmar Árni Halldórsson var í byrjunarliði Stjörnunnar í kvöld. vísir/ernir
Stjarnan og Grindavík skildu jöfn, 1-1, í A-riðli Fótbolti.net-mótsins en leikurinn fór fram í Kórnum í Kópavogi í kvöld.

Stjörnumenn höfnuðu í öðru sæti Pepsi-deildarinnar á síðustu leiktíð en Grindavík endurheimti sæti sitt á meðal þeirra bestu eftir að enda í 2. sæti Inkasso-deildarinnar í fyrra.

Andri Rúnar Bjarnason kom Grindavík yfir á 30. mínútu en þessi sterki framherji að vestan gekk endanlega í raðir Grindavíkur í haust. Hann var á láni hjá suðurnesjaliðinu frá Víkingi á síðustu leiktíð og hjálpaði því að komast upp um deild.

Hólmbert Aron Friðjónsson, sem gekk frá endanlegum félagaskiptum sínum úr KR í Stjörnuna í haust, jafnaði leikinn fyrir Garðbæinga á 42. mínútu og fleiri mörk voru ekki skorun.

Kristijan Jajalo, markvörður Grindavíkur, átti mjög góðan leik í markinu og kom í veg fyrir að Stjarnan tryggði sér sigurinn í seinni hálfleik en þessi öflugi Bosníumaður spilaði frábærlega fyrir Grindjána síðasta sumar.

Grindavík hefur lokið keppni í riðlinum en það gerði tvö jafntefli og tapaði einum leik. Stjarnan er með fjögur stig eftir sigur á ÍA og jafnteflið í kvöld og getur tryggt sér sæti í úrslitaleiknum með sigri á Ólafsvíkingum í lok mánaðarins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×