Körfubolti

Stjarnan búin að finna kana fyrir næsta tímabil

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Coleman í leik með háskólaliði UNC Presbyterian.
Coleman í leik með háskólaliði UNC Presbyterian.
Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar hefur samið við Bandaríkjamanninn Al'lonzo Coleman um að leika með liðinu á komandi leiktíð í Domino's deild karla. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Stjörnunnar.

Coleman, sem er 26 ára gamall, úrskrifaðist frá UNC Presbyterian háskólanum fyrir þremur árum. Á sínu síðasta tímabili með liðinu var hann með 16,9 stig, 8,8 fráköst og 1,8 stoðsendingu að meðaltali í leik.

Á síðasta tímabili lék hann í næstefstu deild í Argentínu þar sem hann skoraði 15,1 stig og tók 6,0 fráköst að meðaltali í leik.

„Mér hefur alltaf fundist Coleman vera leikmaður sem myndi henta vel í deildina hér heima, fjölhæfur strákur sem er sterkur í teignum en getur líka gert aðra hluti mjög vel sem hjálpa liðinu,“ var haft eftir Hrafni Kristjánssyni, þjálfara Stjörnunnar, í fréttinni en hann ku hafa fylgst með Coleman í nokkurn tíma.

Hrafn segir jafnframt að leikmannahópur Stjörnunnar fyrir næsta tímabil sé tilbúinn.

„Við erum ánægðir með þann hóp sem við erum komnir með, teljum hann mátulega blöndu af eldri og yngri leikmönnum þar sem þeir eldri geta haldið áfram að styrkja þá yngri í sinni þróun.

„Hvort hópurinn nægi svo til að ná hinu aðalmarkmiði okkar sem snýr að árangri í öllum keppnum verður svo að koma í ljós þegar á hólminn er komið,“ sagði Hrafn sem stýrði Stjönunni til sigurs í bikarkeppni KKÍ á sínu fyrsta tímabili með liðið.


Tengdar fréttir

Tapið í Njarðvík ekki endapunktur

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, fékk liðsstyrk í gær þegar félagið samdi við Tómas Heiðar Tómasson. Íslenskir leikmenn eru gulls ígildi þar sem aðeins einn erlendur leikmaður er leyfður. Gæðin í deildinni eru meiri núna en í fyrra á fyrsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×