Fastir pennar

Stillta vinstrið

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Það myndi æra óstöðugan að velta vöngum yfir hinu stórbrotna fylgishruni Samfylkingarinnar á umliðnum misserum, sem endaði í eftirminnilegu afhroði flokksins í síðustu kosningum. Látum hér duga að sinni þá greiningu að ástæðu lítils fylgis flokksins megi sennilega að miklu leyti rekja til þess hversu fáir greiddu honum atkvæði …

Margt gott og þarflegt hefur verið um þetta skrifað og verður eflaust gert því að sjaldan hefur jafnmargt fólk komið sér saman um að greiða flokki jafnfá atkvæði. Eflaust heimsmet í fylgisleysi án atrennu. Stillta vinstrið – hið stóra kjörlendi Samfylkingarinnar – ákvað að fara annað. Þetta var eins og hjónaskilnaður – Samfó var ekki mamma eins og Hallgrímur Helga sagði: Samfylkingin var Fyrrverandi. Kjósandinn kominn á krá að skima eftir nýjum förunaut og ætlaði aldrei aftur heim.

Margar skýringar sem sé. Ég staldraði við eina í liðinni viku, sem höfð var eftir þeim glögga stjórnmálafræðingi, Eiríki Bergmann. Þar sagði hann margt gott að vanda og svo var þetta haft eftir honum:

„Eiríkur segir þorra þjóðarinnar, alla almenna launþega sem lifa frá mánaðamótum til mánaðamóta, vera hinn íslenska verkalýð. „Samfylkingin hætti að tala við þetta fólk. Það fór að tala um lýðræðisumbætur, femínisma, umhverfisvernd og svona fínni blæbrigði stjórnmálanna. Allt fín málefni í sjálfu sér en rótin í Samfylkingunni er launabarátta. Barátta alþýðunnar fyrir sínum réttláta skerf í þjóðfélaginu. Í yfirstandandi kosningabaráttu heyrði ég ekki neitt sem minnti á þennan uppruna.““

Að krefjast lægri launa

Eflaust er það rétt hjá Eiríki að SF náði ekki eyrum almennings þegar hún sat í ríkisstjórn og lét Steingrím stjórna fjármálunum og Icesave og fól Jóni Bjarnasyni að semja (ekki) við ESB. Náði svo ekki að segja sögu sína og stjórnar sinnar í kjölfarið. Ekki varð maður þó var við, í umræðum um kjaramál, að talsmenn Samfylkingar færu að láta móðan mása um femínisma eða umhverfismál. Hefðu kannski mátt gera það.

Nú er það að vísu svo, að maður verður einungis var við verkalýðsforingja þegar þeir mótmæla því skörulega að einhver fái jafnhátt kaup og þeir sjálfir eru með; og hvarflar stundum að manni að þeir líti einkum á það sem hlutverk sitt að krefjast lægri launa – milli þess sem þeir sitja í stjórnum lífeyrissjóðanna sem færðu okkur Gamma og aðra lífeyrissóða.

Það er hitt, sem vefst fyrir mér – þetta tal um „fínni blæbrigði stjórnmálanna“. Látum vera með „lýðræðisumbætur“: ég reikna með því að þar vísi Eiríkur til umræðu í kjölfar stjórnlagaráðstillagna um auknar þjóðaratkvæðagreiðslur. Efasemdir um þær eiga vissulega rétt á sér, og nægir að vísa þar til Brexit – þar sem fólk dauðsér unnvörpum eftir illa grunduðu atkvæði sínu sem ætlað var sem „yfirlýsing“ um óskyld málefni og ónóg þátttaka virðist hafa leitt til niðurstöðu sem meirihluti fólks er ósáttur við. Og sannast þar, að það er erfitt að vera vitur eftirá. Og sé farið lengra aftur, má minna á niðurstöður úr atkvæðagreiðslu borgarstjórnar um hundahald, þar sem sárafáir ómökuðu sig til þátttöku, og meirihluti greiddi atkvæði gegn því að leyfa hundahald í Reykjavík. Til allrar hamingju hummaði þáverandi borgarstjórn þá fráleitu niðurstöðu fram af sér; enda málefni sem ekki á erindi í slíkar atkvæðagreiðslur. Meirihluti kjósenda á aldrei að taka bindandi ákvörðun um réttindi minnihluta kjósenda.

Stærstu málin

Nóg um það: hitt vafðist meira fyrir mér, að Eiríkur skyldi tala um femínisma og umhverfisvernd sem „svona fínni blæbrigði stjórnmálanna“ og láta að því liggja að slík mál – þó „fín málefni“ séu – eigi ekki heima meðal baráttumála Samfylkingarinnar. Þarna virðist Eiríkur gangast inn á forsendurnar sem lágu að baki stofnun Vg, þar sem hópur fólks kringum Alþýðubandalagið leitaðist við að skilgreina sig sem meiri femínista og umhverfissinna en fólkið í Samfylkingunni. En hugmyndin var sem sé sú að í Samfylkingunni kæmi saman kringum tiltekin grundvallaratriði fólk úr öllum áttum vinstrimennskunnar – að minnsta kosti fólk úr stillta vinstrinu – villta vinstrið gæti svo verið þarna úti á sínu villta svæði.

Fólk með rætur í verkalýðshreyfingunni, kjarabaráttunni, ætti þá heima með femínistum og umhverfissinnum, baráttufólki fyrir mannréttindum, og öllum þeim sem líta á skatta sem hluta af réttindum og skyldum borgaranna og forsendu velferðar fremur en eignaupptöku eða „ofbeldi“; aðhyllast félagslegar lausnir vandamála. Femínisminn er ein af grunnstoðum SF – Kvennalistinn einn stofnenda flokksins – þetta er sýn eða stefna sem varðar ekki bara réttindi helmings mannkyns, heldur okkur öll. Og umhverfismál: hvernig er hægt að tala árið 2016 um loftslagsmálin sem „fínni blæbrigði stjórnmálanna“ eins og eitthvert pjattmál? Sjálfa spurninguna um framtíð lífs á jörðinni? Þar sem hver og einn jarðarbúi verður að horfa í eigin barm og spyrja sig daglega: hvað get ég gert? Þetta er stærsta úrlausnarefni mannkyns, og snýst um öll blæbrigði tilverunnar, bæði þau fínni og hin ófínni.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu






×