Skoðun

Stígum varlega til jarðar

Ari Trausti Guðmundsson skrifar
Á stuttu tímabili hefur álag á mörg útivistarsvæði margfaldast. Kemur þar til aukinn áhugi okkar á útivist og umferð margra meðal næstum einnar milljónar ferðamanna. Afleiðingar of mikils álags blasa því miður víða við.

Reykjadalur inn af Hveragerði er á náttúruminjaskrá. Þar er snoturt fjalllendi, gróður vöxtulegur og áhugavert hverasvæði, náttúruleg baðlaug, hestastígur og þaulsetin gönguleið inn á eldvirkt svæði. Dalurinn og nágrenni er gott dæmi um land sem fer illa vegna álags og minnir á að nú er víða hafið kapphlaup við eyðileggingu sem er til komin af of seinni uppbyggingu stíga og annarrar aðstöðu ferðafólks; í snarhasti virðist lagt í framkvæmdir sem hefði átt að hefja mun fyrr.

Samkvæmt lauslegri úttekt Andrésar Arnalds hjá Landgræðslunni eftir skoðunarferð um dalinn (12. okt. sl.) og langri myndasyrpu sem hann hefur léð mér er ástand þessa ferðasvæðis vont. Gróðurskemmdir, torfærur, ónýtar gönguslóðir og margt fleira blasir þar við. Við þessu hefur verið brugðist, m.a. með því að hefja gerð mjög breiðs stígs (vegar?) upp dalinn og einnig ofan frá niður í hann. Slóðinn er sýnilega unninn án nægrar fyrirhyggju og líklega hefur fagleg ráðgjöf verið takmörkuð. Vissulega er jákvætt að þarna er hafist handa en margt má af framkvæmdinni læra.

Ég hef ekki í hyggju að gagnrýna vinnuna frekar eða fjalla sérstaklega um það sem þarna má ekki gera eða ætti að gera. Vil frekar benda á að víða um land eru að hefjast svipuð verkferli, annaðhvort undirbúningsvinna eða framkvæmdir, sem kalla á aukið fjármagn, vandaðan undirbúning, trausta fagþekkingu, nærgætni við umhverfið og fleira sem blasir við í jafn fjölbreyttu landslagi og hér er. Nú þegar verður að bregðast við og tryggja með fjáröflun og -veitingum, samráði og breyttum verkefnum stofnana og samtaka, einnig samvinnu þeirra, þannig að skipulag og mannvirkjagerð á göngu- og útivistarsvæðum utan þéttbýlis geti talist ásættanleg. Ef t.d. stígagerð í Þórsmörk er í góðu lagi, hvernig má búa um hnúta svo það sama megi segja um Reykjadal, Laugaveg göngufólks eða Leirhnjúk sem er í einkaeigu? Flýtir í þessum tilvikum er ekki í boði. Í dag standa Landgræðslan, Umhverfisstofnun og Ferðamálastofa að ráðstefnu í Gunnarsholti um umhverfisáhrif vaxandi ferðamennsku. Hún er tímabær.




Skoðun

Sjá meira


×