Innlent

Steypuvinna hafin í holunni á Hörpureitnum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hörpureiturinn hefur staðið óhreyfður síðan fyrir hrun en steypuvinna hófst í holunni í nótt.
Hörpureiturinn hefur staðið óhreyfður síðan fyrir hrun en steypuvinna hófst í holunni í nótt. BM Vallá
Framkvæmdir við nýtt Marriott-hótel á Hörpureitnum í miðborg Reykjavíkur eru hafnar. Holan í reitnum hefur staðið óhreyfð síðan fyrir efnahagshrunið árið 2008 en gert er ráð fyrir að uppbyggingin taki skamman tíma. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá BM Vallá.

Framkvæmdirnar hófust klukkan 4 í nótt en byrjað var að steypa grunn í holuna sem staðið hefur óhreyfð í fjölda ára. Um þrjátíu starfsmenn frá BM Vallá unnu við verkefnið í nótt, segir í tilkynningunni.

,,Það er mjög jákvætt að vinna sé loksins hafin á svæðinu því holan var grafin þarna fyrir hrun og hefur staðið óhreyfð síðan. Þessi hola hefur verið mikið lýti á miðborg Reykjavíkur og því kærkomið að fylla upp í hana. Steypumagnið sem við afhentum í nótt var á við 5-7 einbýlishús," segir Gunnar þór Ólafsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs BM Vallá.

Hótelið mun skarta fimm stjörnum og um 250 herbergjum. Gert er ráð fyrir að bygging þess taki skamman tíma.

,,Marriott hótelið á að byggjast upp á miklum hraða. Verktíminn er skammur þannig að það verður mikið um að vera í byggingu og uppsteypu þessa verkefnis í sumar og haust," segir Gunnar ennfremur.

Vonast er til þess að hótelið taki til starfa fyrir mitt ár 2019. Fjögur tilboð bárust í uppsteypu Marriott-hótelsins á sínum tíma en byggingin verður í eigu bandarískra og íslenskra aðila.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×