Körfubolti

Steve Kerr á frábærar minningar frá 13. júní | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steve Kerr og Michael Jordan fagna saman NBA-titlinum fyrir 19 árum síðan.
Steve Kerr og Michael Jordan fagna saman NBA-titlinum fyrir 19 árum síðan. Vísir/Getty
Steve Kerr er í dag þjálfari NBA-meistara Golden State Warriors og hann og strákana hans vantar nú aðeins einn sigur í viðbót til að verða NBA-meistarar annað árið í röð.

Golden State Warriors getur tryggt sér titilinn með sigri í fimmta leiknum á móti Cleveland Cavaliers og takist það hlýtur 13. júní að vera orðinn uppáhaldsdagur Steve Kerr á árinu, jafnvel þótt að hann eigi afmæli 27. september.

Á þessum sama degi fyrir nákvæmlega nítján árum skoraði Steve Kerr nefnilega úrslitakörfu í lokúrslitum NBA sem hefur lifað sem ein af þeim eftirminnilegustu í sögu deildarinnar.

Steve Kerr tyggði þá Chicago Bulls NBA-titilinn 1997 með því að setja niður skot á úrslitastundu eftir að hafa fengið stoðsendingu frá Michael Jordan. Það sem gerir þessa körfu enn sögulegri eru samskipti Michael Jordan og Steve Kerr í leikhléinu fyrir þessa sókn.

Jordan sagði við Kerr: "Vertu tilbúinn, Stockton mun fara frá þér." Kerr svaraði: "Ég verð tilbúinn, ég mun setja þetta skot niður." Steve Kerr stóð við sín orð, setti niður skotið og Chicago Bulls vann leikinn og titilinn. Það má lesa meira um þetta á nba.com.

Chicago Bulls var þarna að vinna annað árið í röð eftir að Michael Jordan snéri aftur og í fimmta sinn alls. Þeir áttu síðan eftir að endurtaka leikinn árið eftir.

Steve Kerr skoraði bara 9 stig í þessum leik en kringumstæðurnar urðu til þess að frægð hans varð mikil. Hann vann alls fimm NBA-titla sem leikmaður og á nú möguleika á því að vinna NBA-titilinn á tveimur fyrstu árum sínum sem þjálfari í NBA.

Fimmti leikur Golden State Warriors og Cleveland Cavaliers fer fram á heimavelli Golden State í nótt, hefst klukkan eitt eftir miðnætti og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Fyrir þá sem vilja stytta tímann fram að leik er tilvalið að skoða þessa stórmerkilegu körfu Steve Kerr sem verður 19 ára gömul í kvöld.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×