Enski boltinn

Sterling: Ég var þreyttur og svaraði bara heiðarlega

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Raheem Sterling vill verða einn af bestu landsliðsmönnum Englands.
Raheem Sterling vill verða einn af bestu landsliðsmönnum Englands. vísir/getty
Raheem Sterling, framherji Manchester City, stefnir á að spila að minnsta kosti 100 landsleiki fyrir England áður en ferlinum lýkur.

Þessi eldfljóti, tvítugi leikmaður er nú þegar búinn að spila 18 landsleiki og vill komast í hóp þeirra sem spilað hafa 100.

Aðeins níu leikmenn hafa spilað 100 landsleiki fyrir England en leikjahæstir eru Peter Shilton (125), David Beckham (115) og Steven Gerrard (114).

„Ég vil gera mitt besta fyrir mitt land og vonandi verða einn af þeim bestu. Ég vil líka ná 100 leikjum,“ sagði Sterling við blaðamenn á Alicante þar sem liðið æfir fyrir vináttuleik gegn Spáni.

Mikil meiðsli eru í herbúðum enska liðsins og eru því aðeins fimm leikmenn í enska hópnum sem eiga fleiri landsleiki en Sterling.

Sterling var gagnrýndur mikið á síðasta ári fyrir að segjast vera of þreyttur til að spila landsleik með Englandi gegn Eistlandi í undankeppni EM en honum fannst fjölmiðlar gera of mikið úr því.

„Roy [Hodgson] spurði mig spurningannar og ég svaraði heiðarlega. Ég sagði honum nákvæmlega hvernig mér leið og það var hans ákvörðun að taka mig úr hópnum. Ég sagðist aldrei ekki vilja spila,“ sagði Raheem Sterling.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×