Lífið

Sterkustu skákmenn landsins mæta til leiks

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Skák var eitt aðal áhugamál og tómstundagaman Einars Ben. Það kemur fram í endurminningum konu hans,“ segir Hrafn Jökulsson.
"Skák var eitt aðal áhugamál og tómstundagaman Einars Ben. Það kemur fram í endurminningum konu hans,“ segir Hrafn Jökulsson. Fréttablaðið/Ernir
„Einar Benediktsson sendiherra mun leika fyrsta leikinn á afmælismóti Einars Ben á veitingahúsinu Einari Ben við Ingólfstorg. Þetta er svona þrenna,“ segir Hrafn Jökulsson, formaður Taflfélagsins Hróksins. Þar á hann við skákmót sem haldið er í dag klukkan 14 í tilefni 150 ára afmælis skáldsins Einars Ben.

Hrafn segir skáldið Einar Ben hafa verið ástríðufullan skákmann. „Skák var eitt aðal áhugamál og tómstundagaman Einars. Það kemur fram í endurminningum konu hans. Hann tefldi mikið og var meðal stofnenda Taflfélags Reykjavíkur sem er elsta og virðulegasta taflfélag á landinu og stendur að afmælismótinu ásamt okkur í Hróknum.“

Hrafn segir Einar hafa tekið þátt í fyrsta opinbera skákviðburðinum á Íslandi sem sögur fara af. „Hann tefldi sýningarskák á þjóðhátíð í Reykjavík 1901 með lifandi taflmönnum gegn Pétri Zóphóníassyni sem var besti skákmaður landsins á þeim tíma. Þeirri skák lauk með jafntefli,“ segir Hrafn.

„Einar tefldi að staðaldri við bestu skákmenn á Íslandi og hefur örugglega ekki þolað að sitja alltaf og tapa. Það var ekki í hans anda.“

Við setningu mótsins í dag klukkan 14 mun Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur flytja afmælisræðu um Einar. Margir meistarar eru skráðir til leiks, meðal annars Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari Íslands og fyrrverandi forseti FIDE. Einnig stórmeistararnir Jóhann Hjartarson, Jón L. Árnason, Þröstur Þórhallsson og Hjörvar Steinn Grétarsson og alþjóðlegu meistararnir Björn Þorfinnsson og Jón Viktor Gunnarsson.

Alls verða keppendur 40 og í þeim hópi eru mörg efnilegustu börn og ungmenni landsins í íþróttinni.

Veitingahúsið Einar Ben gefur veglega vinninga, meðal annars bækur með ljóðum þjóðskáldsins. Áhorfendur eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×