Skoðun

Sterkur háskóli í þágu þjóðar

Guðrún Nordal skrifar
Háskólar um allan heim eru í mikilli deiglu. Alls staðar knýja breytingar dyra. Tæknibreytingar ekki síður en breytingar á atvinnuháttum, áskoranir sem fylgja auknum hreyfanleika fólks og síaukinni upplýsingamiðlun. Áhrifin birtast með ólíkum hætti í örsmáu samfélagi eða hjá milljónaþjóðum. Spurt er hvort háskólamenntun búi nemendur nógu vel undir að takast á við áskoranir nútímans. Hvernig mælum við árangurinn af háskólanámi?

Allir háskólar í heiminum keppast um að komast sem hæst á listum sem þar sem árangur af rannsóknar- og kennslustarfi er mældur á staðlaðan hátt, svo að rannsóknarafköst vaxa alls staðar. Allir háskólar keppa um bestu nemendurna. En geta þeir þá um leið verið menntastofnanir sem byggja á jöfnuði til náms?

Íslendingar hafa ekki efni á að velja aðeins eina leið. Háskóli Íslands er svo miklu meira en venjulegur háskóli; hann er ein mikilvægasta kjölfestan í okkar litla samfélagi. Um leið og hann tekur þátt í alþjóðlegri þekkingarsköpun þá á hann líka djúpar íslenskar rætur og þjónar okkar samfélagi. Þetta tvíbenta hlutverk gefur Háskólanum sérstöðu í samanburði við nær alla skóla í stærri löndum. Samfélagið er miklu nær þeim sem starfa í Háskólanum; enda er hann eini skólinn sem býður upp á nám í nær öllum faggreinum. Þessi sérstaða leggur skólanum ljúfar skyldur á herðar.

Ég þekki sjálf úr minni grein að jafnframt því að hafa birt nær allar mínar rannsóknir á íslenskum miðaldabókmenntum á erlendum vettvangi og leiða alþjóðlega rannsóknahópa, er samtalið við íslenskt samfélag alltaf mikil áskorun. Okkur rennur flestum blóðið til skyldunnar. Áhrifin eru allt önnur en í hinu alþjóðlega starfi; þau snerta fólkið í þessu landi beint.

Það verður stórkostlegt verkefni fyrir næsta rektor Háskólans að leiða saman næstu fimm árin þessa tvo póla í okkar starfi, þjóðskólann og alþjóðlega rannsóknarháskólann, aðskilda póla sem þó eru jafn nátengdir og pólarnir á jarðarkringlunni. Annar getur ekki án hins verið. Háskólinn hlýtur að rækta sitt samfélag enda er það undirstaða þess að samfélagið styðji heilshugar við Háskólann.




Skoðun

Sjá meira


×