Innlent

Sterklega grunaður um hnífsstungu á Hverfisgötu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vettvangi á Hverfisgötu þann 23. nóvember.
Frá vettvangi á Hverfisgötu þann 23. nóvember. Mynd/Þorgeir Ólafsson
Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms yfir manni sem er undir sterkum grun að hafa stungið Sebastian Andrzej Golab á Hverfisgötu þann 23. nóvember. Upphaflega voru þrír menn settir í gæsluvarðhald en hinum tveimur hefur verið sleppt. Málið er rannsakað sem tilraun til manndráps.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að maðurinn hafi verið yfirheyrður fimm sinnum vegna málsins en neiti sök. Hann kannist þó við að hafa verið á vettvangi og að hafa þar lent í átökum en neiti að hafa stungið brotaþola. Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 24. nóvember.

Rannsókn málsins er langt á veg komin að sögn lögreglu. Kærði liggur undir sterkum grun um að hafa ráðist á brotaþola með hníf og stungið hann í brjóstið og með því veitt honum áverka sem hefðu hæglega geta dregið brotaþola til dauða. Brot kærða sé sérstaklega alvarlegt og kunni að varða 16 ára fangelsi eða allt að ævilöngu.

„Af öllu framangreindu sé ljóst að kærði er hættulegur umhverfi sínu og er það mat lögreglu að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna,“ segir í greinargerð lögreglu.

Málið vakti mikla athygli þar sem það þykir kraftaverki líkast að Sebastian sé á lífi. Hann var stunginn í gegnum hjartað og skildi hnífurinn eftir sig gat í hjartanu. Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá var hann fluttur á slysadeild þar sem læknar Landspítala, og þar fremstur meðal jafningja Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlæknir, unnu ótrúlegt björgunarafrek þegar hjarta Sebastians var hnoðað aftur í gang.


Tengdar fréttir

Þakklátur fyrir að hafa lifað af hnífstungu gegnum hjartað

Sebastian var stunginn í gegnum hjartað á Hverfisgötu fyrir rúmri viku. Með ótrúlegum hætti tókst að bjarga lífi hans og bati hans þykir undraverður. Hann lítur á björgunina sem annað tækifæri og ætlar að lifa lífinu með allt öðrum hætti hér eftir.

Hnífurinn gekk í hjarta mannsins

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fann í gærkvöldi mann, sem hún hafði lýst eftir vegna rannsóknar á lífshættulegu hnífstungumáli, sem kom upp í heimahúsi við Hverfisgötu aðfararnótt sunnudags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×