Erlent

Sterkar vísbendingar um voðaverk

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Flughermir sem fannst á heimili flugstjóra malasísku flugvélarinnar MH370 hafði verið notaður til að marka stefnu til suður-Indlandshafs. Talið er að flugvélin hafi horfið þar. Rannsakendur segja að það sanni þó ekki að flugvélinni hafi verið vísvitandi brotlent í hafið. Gögnin sýna eingöngu fram á mögulega skipulagningu.

Þetta staðfestu ástralskir rannsakendur en rannsókn á flugherminum hefur staðið yfir í rúm tvö ár.

Svæðið þar sem leitin hefur staðið yfir.Vísir/GraphicNews
Flugvélin hvarf af ratsjám á leið frá Kuala Lumpur til Peking í mars 2014 en 239 manns voru um borð. Lengi hefur verið talið að flugvélin hafi endað í hafinu langt vestur af Ástralíu. Gervihnattagögn voru notuð til að mynda 120 þúsund ferkílómetra leitarsvæði þar sem umfangsmikil leit hefur farið fram.

Sjá einnig: Hvarf MH370 enn ráðgáta.

Leitarsvæðið er þó mjög langt frá landi, dýpi er mjög mikið og fjöll og gljúfur má finna á hafsbotni. Allt þetta hefur gert leitina mjög erfiða og stendur til að hætta henni. Um tíu þúsund ferkílómetrar eru eftir af leitarsvæðinu og verður leitinni hætt þegar búið er að leita þar.

Nokkrir hlutar úr flugvélinni hafa fundist við strendur Afríku, en þeir hafa ekki geta varpað ljósi hvað kom fyrir flugvélina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×