Sport

Stephen Curry verður á trommunum á Super Bowl í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry.
Stephen Curry. Vísir/Getty
Stephen Curry ætlar að sýna stuðning sinn í verki í kvöld þegar hann verður með trommurnar fyrir Super Bowl leik Carolina Panthers og Denver Broncos en leikurinn fer fram á Levi´s leikvanginum í San Francisco.

Það verða því bestu leikmenn NBA og NFL á sama vellinum í kvöld en Cam Newton, leikstjórnandi Carolina Panthers var kosinn besti leikmaður NFL-deildarinnar í gær.

Stephen Curry er mikill stuðningsmaður Carolina Panthers en hann ólst upp í Charlotte í Norður-Karólínu þar sem faðir hans Dell Curry spilaði með NBA-liðinu Charlotte Hornets.

Stephen Curry spilaði bæði í menntaskóla og háskóla í Norður-Karólínu en hann lék með Davidson College áður en hann fór í NBA.

Curry hefur verið duglegur að tala um ást sína á Carolina Panthers liðinu og mætti meðal annars í búningi liðsins á æfingu Golden State Warriors þegar Carolina Panthers var að spila á sama tíma í úrslitum Þjóðardeildarinnar.

Það er hefð fyrir því hjá Carolina Panthers að berja trommur þegar liðið hleypur inn á völlinn en hún var tekin upp til minningar um leikmanninn Sam Mills sem dó úr krabbameini árið 2005.

Orð Sam Mills „Keep Pounding" voru Panthers-liðinu mikill innblástur þegar liðið komst síðast í Super Bowl fyrir tólf árum en Mills átti þá sjálfur í harði baráttu við illvígt krabbamein.

Super Bowl leikurinn er sá fimmtugasti í röðinni og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Útsendingin hefsr klukkan 23.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×