Körfubolti

Steph Curry stakk sér til sunds meðal áhorfenda | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margir stuðningsmenn Golden State Warriors tóku örugglega andköf í fyrsta leikhlutanum í nótt þegar besti leikmaður NBA-deildarinnar tók kannski aðeins of mikla áhættu í baráttu um boltann.

Golden State Warriors liðið mætti til leiks 1-0 undir á móti Oklahoma City Thunder í úrslitum Vesturdeildarinnar og átti á hættu að fara 2-0 undir í næstu tvo leiki í Oklahoma City.

Atvikið sem fékk stuðningsfólk NBA-meistaranna til að svitna gerðist þegar aðeins níu mínútur voru liðnar af leiknum.

Stephen Curry stakk sér þá til sunds inn í miðjan áhorfendaskarann þegar lítið var eftir af þriðja leikhlutanum og Golden State liðið var sex stigum yfir.

Stephen Curry hefur verið að glíma við meiðsli í úrslitakeppninni og hefur misst af leikjum vegna bæði ökkla- og hnémeiðsla. Hann er ekki enn orðin alveg hundrað prósent og þá er ekki sniðugt að vera fórna skrokknum eins og hann gerði í þessu tilfelli.

Steph Curry var þarna kominn með níu stig í leiknum en öll þeirra komu rétt áður og Curry leit út fyrir að vera að komast í gang.

Þeir svartsýnustu óttuðust jafnvel að Curry væri aftur meiddur enda leið svolítill tími þar til að hann stóð aftur upp. Bandarísku fjölmiðlarnir höfðu þó meira gaman af þeim sem nýtti tækifærið og myndaði Curry í bak og fyrir á meðan hann náði áttum á gólfinu.

Stuðningsmenn Golden State gátu þó andað léttar því Steph Curry slapp ómeiddur og átti eftir að skora 19 stig til viðbótar í öruggum sigri Golden State.

Hann skoraði reyndar fimmtán þeirra stiga á innan við tveggja mínútna kafla í þriðja leikhlutanum en Golden State liðið komst tuttugu stigum yfir á þessum tveimur Curry-mínútum.

Í spilaranum fyrir ofan má sjá þessa flugferð Stephen Curry upp í stúku frá því í nótt.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×