Körfubolti

Steph Curry bætti met Reggie Miller | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry setti nýtt met í NBA-deildinni í körfubolta í nótt þegar Golden State Warriors og Oklahoma City Thunder léku fyrsta leikinn í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar.

Curry skoraði alls sex þriggja stiga körfur í leiknum en hann bætti met Reggie Miller þegar hann smellti þeirri fyrstu niður þegar 42 sekúndur voru eftir af fyrri hálfleik.

Þetta var 45. leikurinn í röð í úrslitakeppninni þar sem Stephen Curry setti niður þrist en Reggie Miller náði mest að skora þriggja stiga körfur í 44 leikjum í röð í úrslitakeppninni á sínum tíma.

Svo skemmtilega vildi til að Reggie Miller var einmitt að vinna við leikinn fyrir TNT-sjónvarpsstöðina þegar Stephen Curry tók af honum þetta met í nótt.

Þessir 44 leikir í úrslitakeppni hjá Reggie Miller voru árunum 1995 til 2000 en Curry hefur nú hitt úr þriggja stiga skoti í öllum leikjum sínum í úrslitakeppni frá árinu 2013.

Stephen Curry eignaðist einnig metið í deildarkeppninni á þessu tímabili en það tók hann af Kyle Korver. Kyle Korver hafði hitt úr þriggja stiga skoti í 127 leikjjm í röð frá 2012 til 2014 en  Curry endaði deildarkeppnina á því að hafa skorað þriggja stiga körfur í 152 leikjum í röð.

Curry er kominn með fjögur þriggja stiga met á tímabilinu því hin tvö setti hann í deildarkeppninni. Enginn hefur skorað fleiri þrista á einu tímabili (402), enginn hefur skorað fleiri þrista í einum leik (12)

Fyrir þá sem vilja bera þá Stephen Curry og Reggie Miller saman þá er hægt að nálgast mjög skemmtilegan samanburð hérna.

Hér fyrir í spilaranum fyrir ofan sem og í myndböndum hér fyrir neðan má sjá samantekt frá NBA-deildinni um það þegar Stephen Curry tók metið af Reggie Miller í nótt.

Það fylgir sögunni að Stephen Curry og félagar í Golden State Warriors töpuðu leiknum og Oklahoma City Thunder er þar með komið 1-0 í einvíginu þar sem það lið sem fyrr vinnur fjóra leiki tryggir sér sæti í úrslitaeinvíginu um NBA-titilinn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×