Golf

Stenson varði titilinn í Dubai

Stenson elskar að spila í Dubai
Stenson elskar að spila í Dubai AP
Henrik Stenson valdi góðan tíma til þess að verja sinn fyrsta titil á ferlinum en hann sigraði á DP World Tour Championship í Dubai sem kláraðist í dag.

Mótið er eitt stærsta mót Evrópumótaraðarinnar á ári hverju en fyrir hringinn deildi Stenson forystunni með Spánverjanum Rafa Cabrera-Bello á 14 höggum undir pari. Sá síðarnefndi höndlaði ekki pressuna og spilaði sig úr mótinu á seinni níu holunum á lokahringnum með tveimur tvöföldum skollum í röð.

Það leit líka út fyrir að pressan væri að ná til Stenson á tímabili á lokahringum en eftir að hafa fengið þrjá fugla snemma á hringnum fékk hann skolla á áttundu holu og tvöfaldan skolla á þá elleftu.

Það setti aldeilis spennu í mótið en Rory Mcilroy skilaði inn hring upp á 68 högg eða fjóra undir pari til þess að jafna við Stenson sem átti þó nokkrar holur óleiknar.

Sá sænski nældi sér þá í tvo fugla á síðustu tveimur holunum til þess að sigra mótið annað árið í röð en hann endaði á 16 höggum undir pari samtals, tveimur á undan Ryder-liðsfélögum sínum, Rory McIlroy, Justin Rose og Victor Dubuisson.

DP World Tour Championship er lokamót ársins á Evrópumótaröðinni og höfðu aðeins 60 stigahæstu kylfingar hennar þátttökurétt. Henrik Stenson fékk rúmlega 155 milljónir íslenskra króna í sinn hlut fyrir að sigra mótið ásamt bónusávísun upp á rúmlega 100 milljónir fyrir að enda í öðru sæti á stigalista mótaraðarinnar í ár.

Rory McIlroy var stigahæsti kylfingur Evrópumótaraðarinnar í ár enda sigraði hann á tveimur risamótum. Hann fékk 80 milljónir fyrir annað sætið í mótinu um helgina ásamt bónusávísun upp á 150 milljónir fyrir að sigra á mótaröðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×