Golf

Stenson stigameistari evrópsku mótaraðarinnar í annað skiptið

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Stenson sáttur með sigurverðlaunin sem voru að hætti Dubai, risastór.
Stenson sáttur með sigurverðlaunin sem voru að hætti Dubai, risastór. Vísir/getty
Sænski kylfingurinn Henrik Stenson sigraði Race to Dubai, stigakeppni Evrópumótaraðarinnar í golfi en þetta varð ljóst þegar hann hafnaði í 9. sæti á DP World Tour Championship í Dubai.

Keppnin í ár stóð aðallega á milli Stenson sem sigraði Opna breska meistaramótið í ár og Danny Willet en Rory McIlroy átti enn veika von fyrir lokamótið.

Rory sem hafði titil að verja þurfti að standa uppi sem sigurvegari í Dubai ásamt því að treysta á að Stenson hafnaði í sæti 46. eða neðar.

Stenson lék lokahringinn á 65. höggum sem dugði honum til þess að ná níunda sæti og gulltryggja titilinn en þetta er í annað skiptið sem hann hampar þessum titli.

Var Rory búinn að bera sigur úr býtum undanfarin tvö ár en þeir tveir hafa skipt þessu sín á milli undanfarin fimm ár.

„Þetta hefur verið frábært ár, það besta á ferlinum. Það var erfitt að toppa 2013 þegar ég sigraði stigakeppnina síðast en mér tókst það með þessu,“ sagði Stenson sáttur í viðtali eftir mótið.

Enski kylfingurinn Matt Fitzpatrick sigraði á mótinu í Dubai á 17. höggum undir pari en landi hans Tyrrell Hatton hafnaði í öðru sæti, einu höggi á eftir Fitzpatrick.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×