Golf

Stenson í stuði en Spieth í vandræðum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Henrik Stenson reynir að pútta í rigningunni í Skotlandi.
Henrik Stenson reynir að pútta í rigningunni í Skotlandi. vísir/getty
Sænski kylfingurinn Henrik Stenson hefur spilað allra manna best á opna breska meistaramótinu í golfi í dag en hann fór annan hringinn á Royal Troon-vellinum á 65 höggum eða sex höggum undir pari.

Svíinn er í heildina á níu höggum undir pari eftir 68 högga hring í gær og er aðeins einu höggi á eftir Bandaríkjamanninum Phil Mickelson sem er efstur og verður eftir tvo hringi nema eitthvað ótrúlegt gerist.

Stenson fékk fjóra fugla á þriðju, fjórðu, fimmtu og sjöundu holu áður en hann fékk skolla á þeirri níundu og spilaði því fyrri níu á þremur höggum undir pari. Hann fékk svo þrjá fugla til viðbótar á seinni níu en engan skolla.

Daninn Sören Kjeldsen spilaði aftur mjög stöðugt golf en eftir að fara hringinn á 67 höggum í gær spilaði hann á 68 höggum í dag eða þremur undir pari og er í heildina á sjö höggum undir pari eins og Bandaríkjamaðurinn Keegan Bradley.

Fjórir efstu menn heimslistans eru ekkert sérstaklega líklegir eins og staðan er núna. Ástralinn Jason Day er tveimur undir í dag og á pari í heildina eftir sex holur á öðrum hring og Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson er á tveimur undir í dag og tveimur undir í heildina.

Norður-Írinn Rory McIlroy er á einum undir í dag eftir fimm holur og á þremur höggum undir pari í heildina en hann gæti færst nær toppnum áður en öðrum keppnisdegi lýkur.

Bandaríska ungstirnið Jordan Spieth er aftur á móti í smá basli. Spieth spilaði á pari í gær og er þremur höggum yfir pari í dag eftir átta holur. Hann er búinn að fá tvo skolla, einn skramba og einn fugl á fyrstu átta holunum.

Reiknað er með að þeir sem verði á tveimur höggum yfir pari sleppi í gegnum niðurskurðinn þannig Spieth þarf ekkert kraftaverk til að sleppa í gegn en hann verður aftur móti að girða sig í brók ef ekki á illa að fara.

Hér má sjá stöðuna í mótinu en bein útsending stendur yfir á Golfstöðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×