Lífið

Stemning og stuð á edrúhátíð

Baldvin Þormóðsson skrifar
Rúnar Freyr segir hátíðina vera fyrir alla sem vilja koma og skemmta sér edrú.
Rúnar Freyr segir hátíðina vera fyrir alla sem vilja koma og skemmta sér edrú. vísir/stefán
„Þetta þýðir bara að þarna verður enginn þunnur og enginn á bömmer á leiðinni heim,“ segir Rúnar Freyr Gíslason sem skipuleggur Edrú-hátíðina á Laugalandi í Holtum. Er þetta í þriðja sinn sem hátíðin er haldin.

„Þetta er alltaf að verða stærra og stærra,“ segir Rúnar. „Við erum með massífa dagskrá yfir daginn fyrir börnin og síðan tónleikar um kvöldið.“

Það er sannkölluð tónlistarveisla um kvöldið en á meðal tónlistarmanna sem koma fram eru til dæmis KK og Maggi Eiríks, Benni Hemm Hemm og Sísí Ey með „acoustic“ sett.

Dagskráin yfir alla hátíðina er heldur ekki af verri endanum. Má þar til dæmis nefna knúskeppni, graff-listasmiðju fyrir börn, ratleiki, söngkeppni barnanna og svo lengi mætti telja.

„Það eru margir sem halda að hátíðin sé bara fyrir alkóhólista og aðstandendur þeirra en þetta er alls ekki þannig,“ segir Rúnar. „Hátíðin er fyrir alla sem vilja koma og skemmta sér edrú yfir helgina.“

Það hlýtur að teljast erfitt að bóka hljómsveitir á hátíðir um verslunarmannahelgina en þegar vandamál koma upp þá er þeim reddað segir Rúnar.

„Trommarinn í Mammút er sem sagt að koma fram með Jóni Jónssyni í Eyjum á föstudagskvöldið,“ útskýrir Rúnar en trommarinn á einmitt að koma fram með Mammút kl. 23 á Edrú-hátíðinni sama kvöld.

„Þegar hann er búinn þá brunar hann niður á höfn og Atlantsflug flýgur með hann sérstaklega upp á land þar sem ég sæki hann og hendi honum beint upp á svið.“

Hátíðin kemur einnig til móts við þá sem treysta sér ekki að sofa í tjaldi og bjóða upp á dagpassa á 2.500 krónur.

„Þetta er bara klukkustund frá Reykjavík þannig að fólk getur alveg skotist yfir daginn,“ segir Rúnar en hátíðin hefst í dag. „Þetta er bara stemning og stuð í bland við öryggi og alúðlegheit.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×