Handbolti

Stelpurnar töpuðu með tíu mörkum á móti Svíum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rut Jónsdóttir.
Rut Jónsdóttir. Vísir/Ernir
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta tapaði með tíu mörkum á móti Svíþjóð, 23-33, í æfingamóti í Póllandi í dag.

Þetta var fyrsti leikur íslenska liðsins undir stjórn Axels Stefánssonar sem tók við liðinu í sumar af Ágústi Þór Jóhannssyni.

Karen Knútsdóttir var markahæst í íslenska liðinu með fimm mörk en Rut Jónsdóttir átti einna bestan leik íslensku stelpnanna í sókninni og var bæði að búa til fyrir sig og aðrar í liðinu.

Svíar voru átta mörkum yfir í hálfleik, 20-12, en íslenska liðið náði að minnka muninn í sex mörk með ágætri byrjun á seinni hálfleiknum.

Sænska liðið gaf þá aftur í og náði mest ellefu marka forystu en munurinn varð á endanum tíu mörk.

Eva Björk Davíðsdóttir átti líka ágæta innkomu í lokin og skoraði þá þrjú mörk á stuttum tíma. Heiða Ingólfsdóttir stóð sig líka ágætlega í íslenska markinu í seinni hálfleiknum.

Hin sextán ára gamla Lovísa Thompson spilaði sinn fyrsta A-landsleik og skoraði sitt fyrsta mark úr hraðaupphlaupi undir lokin.

Íslenska liðið spilaði mikið 5:2 í sókninni þar sem Axel tók markvörðinn af velli og setti aukamann í sóknina. Það gekk ekkert alltof vel en það kom oft ekki að sök þar sem sænska liðinu gekk afar illa að skora í autt markið.

Mörk Íslands:

Karen Knútsdóttir 5, Þórey Rósa Stefánsdóttir 3, Rut Jónsdóttir 3, Eva Björk Davíðsdóttir 3, Steinunn Hansdóttir 2, Hildigunnur Einarsdóttir 2, Sunna Jónsdóttir 2, Lovísa Thompson 1, Arna Sif Pálsdóttir 1, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×