Fótbolti

Stelpurnar okkar verða ekki með Dönum eða Skotum í riðli á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stelpurnar fagna hér marki á æfingamótinu út í Kína.
Stelpurnar fagna hér marki á æfingamótinu út í Kína. Mynd/KSÚ/Hilmar Þór
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta verður í þriðja styrkleikaflokki þegar dregið verið í riðla fyrir  Evrópumótið í Hollandi sem fer fram næsta sumar.

Íslenska liðið er í þriðja styrkleikaflokknum ásamt Ítalíu, Skotlandi og Danmörku og verður því ekki með þeim þjóðum í riðli. UEFA segir frá á heimasíðu sinni.

Dregið verður í riðla í Rotterdam 8. nóvember næstkomandi en þetta verður í fyrsta sinn sem sextán þjóðir taka þátt í úrslitakeppninni.

Stelpurnar okkar eru að taka þátt í þriðja Evrópumótinu í röð en íslenska liðið var í neðsta styrkleikaflokki þegar dregið var í riðli á EM 2013 og á EM 2009.

Ísland var með Skotlandi í riðli í undankeppninni og lendir því ekki í því sama og undanfarin Evrópumót þegar liðið lenti í riðli með þjóðum sem voru einnig með íslenska liðinu í riðli í undankeppninni. Það gerðist með Frakka 2009 og með Norðmenn 2013.

Gestgjafar Hollendinga eru í efsta styrkleikaflokknum ásamt Evrópumeisturum Þýskalands, Frakklandi og Englandi.

Portúgal var sextánda og síðasta þjóðin sem tryggði sér farseðilinn á EM en liðið hafði betur á móti Rúmeníu í umspilsleikjum um síðasta sætið. Portúgalar eru í síðasta styrkleikaflokknum ásamt Austurríki, Belgíu og Rússlandi og gætu því lent í riðli með Íslandi.



Styrkleikaröðun fyrir riðladráttinn í EM 2017:

Fyrsti flokkur: Holland, Þýskaland, Frakkland, England.

Annar flokkur: Noregur, Svíþjóð, Spánn, Sviss

Þriðji flokkur: Ítalía, Ísland, Skotland, Danmörk

Fjórði flokkur: Austurríki, Belgía, Rússland, Portúgal




Fleiri fréttir

Sjá meira


×