Körfubolti

Stelpurnar okkar ekki í vandræðum gegn Möltu

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Helena var atkvæðamest í íslenska liðinu
Helena var atkvæðamest í íslenska liðinu Vísir/Daníel
Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta átti ekki í vandræðum gegn Möltu í fyrsta leik liðanna í Evrópukeppni smáþjóða sem fer fram í Austurríki þessa dagana.

Stelpurnar okkar náðu strax undirtökunum í upphafi leiksins og leiddu allt frá fyrstu sekúndum leiksins en glæsilegur kafli í öðrum leikhluta gerði endanlega út um leikinn.

Þrátt fyrir að íslenska liðið hefði undirtökin náðu þær ekki að hrista Möltu frá sér í fyrsta leikhluta.

Í öðrum leikhluta sýndu stelpurnar hinsvegar allar sínar bestu hliðar á báðum endum vallarins og unnu leikhlutann með 22 stigum. Munaði þar helst um varnarleikinn en Malta náði aðeins að setja niður fimm stig í leikhlutanum.

Fyrir vikið tók íslenska liðið 27 stiga forskot inn í hálfleikinn og gerði endanlega út um leikinn í þriðja leikhluta sem vannst 17-10 og var munurinn kominn upp í 34 stig.

Fjórði og síðasti leikhlutinn var því aðeins formsatriði fyrir stelpurnar okkar sem sigldu sigrinum örugglega heim. Fór svo að leiknum lauk með 85-46 sigri Íslands en stelpurnar mæta Gíbraltar á morgun.  

Helena Sverrisdóttir fór fyrir íslenska liðinu með sextán stig og níu fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir setti niður tólf stig og þá bætti Pálína Gunnarsdóttir við tíu stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×