Fótbolti

Stelpurnar í 2. styrkleikaflokki fyrir HM-dráttinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stelpurnar okkar gætu lent í erfiðum riðli í undankeppni HM 2019.
Stelpurnar okkar gætu lent í erfiðum riðli í undankeppni HM 2019. vísir/ernir
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta verður í 2. styrkleikaflokki þegar dregið verður til undankeppni HM 2019 þann 25. apríl en lokamót HM fer fram í Frakklandi eftir tvö ár.

Stelpurnar okkar eru tíunda sæti af þeim 31 þjóð sem komast beint í riðlakeppnina. Holland, gestgjafar EM í sumar, eru í níunda sæti en Ítalía (8. sæti) slefaði upp í efsta styrkleikaflokk með aðeins betri árangur en Holland og Ísland. Litlu munaði að Ísland væri í efsta styrkleikaflokki.

Þegar stigin voru talin til að ákveða niðuröðunina gilti árangur liða á EM 2013 20 prósent, árangur á HM 2015 40 prósent og árangur í undankeppni EM 2017 40 prósent. Ísland komst í átta liða úrslit á EM fyrir fjórum árum en var ekki með á HM í Kanada. Þá stóðu stelpurnar sig frábærlega í undankeppni EM og unnu þar alla leiki nema einn.

Styrkleikaflokkarnir eru fimm en dregið verður í sjö riðla. Efsta þjóð hvers riðils kemst beint á HM og fjögur bestu liðin í öðru sæti komast í umspil um síðustu sæti Evrópu á heimsmeistaramótinu í Frakklandi árið 2019.

Þýskaland, England, Noregur, Svíþjóð, Spánn, Sviss og Ítalía skipa efsta styrkleikaflokkinn en Frakkar eru vitaskuld öruggir með sæti sitt sem gestgjafar.

Ísland er svo í öðrum styrkleikaflokki með Hollandi, Skotlandi, Danmörku, Austurríki, Belgíu og Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×