Handbolti

Stelpurnar hans Þóris sýndu enga miskunn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórir er enn einu komin í undanúrslit á stórmóti.
Þórir er enn einu komin í undanúrslit á stórmóti. vísir/anton
Norska kvennalandsliðið í handbolta, sem Þórir Hergeirsson þjálfar, tryggði sér sæti í undanúrslitum Ólympíuleikanna í Ríó með risasigri, 33-20, á Svíum í kvöld.

Norska liðið hefur því komist í undanúrslit á sjö af átta stórmótum síðan Þórir tók við þjálfun þess 2009.

Noregur varð Ólympíumeistari í Peking 2008 og í London fjórum árum seinna og miðað við frammistöðuna í dag er líklegt að þriðja gullmedalían bætist við í safnið í Ríó.

Eins og tölurnar gefa til kynna voru yfirburðir norska liðsins í leiknum í kvöld miklir. Noregur skoraði fyrstu fjögur mörk leiksins og um miðjan fyrri hálfleik var staðan orðin 10-2.

Tólf mörkum munaði á liðunum í hálfleik, 19-7, og seinni hálfleikurinn var því aðeins formsatriði sem þurfti að klára.

Norsku stelpurnar gáfu hvergi eftir og þegar lokaflautið gall munaði 13 mörkum á liðunum, 33-20.

Stine Bredal Oftedal var markahæst í norska liðinu með sex mörk en Heidi Löke og Camilla Herren komu næstar með fimm mörk hvor. Þá átti Kari Aalvik Grimsbö stórleik í marki Noregs og varði 18 skot (56%).

Isabelle Gulldén bar af í sænska liðinu og skoraði níu af 20 mörkum þess.

Holland og Frakkland tryggðu sér einnig sæti í undanúrslitum í dag. Það kemur svo í ljós seinna í kvöld hvort Rússland eða Angóla verður fjórða liðið í undanúrslitum en Noregur mætir sigurvegaranum úr þeim leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×