Innlent

Steinunn Ólína harmar ranga frétt um handtökur um borð í Polar Nanoq

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Grænlenski togarinn Polar Nanoq.
Grænlenski togarinn Polar Nanoq. víðir már hermannsson
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, ritstjóri Kvennablaðsins, viðurkennir að hún hafi hlaupið á sig með því að birta frétt á veg Kvennablaðsins þar sem fullyrt var að búið væri að handtaka tvo skipverja togarans Polar Nanoq.

Í frétt sem birtist í gærkvöldi hafði Kvennablaðið eftir „áreiðanlegum heimildum“ að sérsveitin lögreglunnar hafi farið um borð í togaranum sem er á siglingu vestur af Íslandi. Þar hafi tveir skipverjar verið handteknir í tengslum við hvarf Birnu Brjánsdóttur sem leitað hefur verið síðan á aðfaranótt laugardags.

Fréttin var uppfærð síðar um kvöldið eftir að Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu staðfesti að enginn hafi verið handtekinn um borð í togaranum né hafi einhver um borð réttarstöðu grunaðra.

Í yfirlýsingu frá Steinunni Ólínu segir að hún harmi mistökin sem gerð hafi verið í gær.

„Kvennablaðið hefur engra hagsmuna að gæta af því að flytja rangar eða tilhæfulausar fréttir um málið enda er þetta eina fréttin sem Kvennablaðið hefur birt um málið og ég harma þessi mistök í fyrirsögn okkar í gær,“ segir í yfirlýsingunni.

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir er ritstjóri Kvennablaðsins.Vísir/Anton
Stendur við fullyrðingar um að Birna hafi verið í samskiptum við áhafnarmeðlimi

Í frétt Kvennablaðsins sem um ræðir var einnig fullyrt að Birna hafi verið í samskiptum við áhafnarmeðlimi togarans kvöldið sem hún hvarf. Í yfirlýsingunni Steinunnar Ólínu kemur fram að Kvennablaðið standi við þessa fullyrðingu og telur hún að heimildir Kvennablaðsins sé traustar. Steinunn Ólína muni hins vegar standa og falla með því.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur rannsókn á hvarfi Birnu meðal annars beinst að því hvort að einhverjar vísbendingar megi finna með því að skoða samfélagsmiðlanotkun Birnu. Skoðun á þeim hefur hins vegar ekki leitt neitt í ljós sem hægt sé að byggja á við rannsókn málsins.

Polar Nanoq stefnir nú til Ísland og er reiknað með að skipið leggist að bryggju í Hafnarfjarðarhöfn um klukkan 23 í kvöld.

Líkt og greint var frá í Fréttablaðinu í dag tóku forsvarsmenn útgerðarinnar ákvörðun um að snúa skipinu við á leið frá Íslandi eftir að greint var frá því að frá því að skipverji væri grunaður um að hafa haft á leigu rauðan Kia Rio sem lögreglan hefur leitað að frá því á mánudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×