Viðskipti innlent

Steinn Kári ráðinn framkvæmdastjóri DV

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/gva
Steinn Kári Ragnarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Útgáfufélagsins DV ehf, sem rekur DV og DV.is. Þetta kemur fram í tilkynningu frá DV.

Steinn Kári hefur áralanga reynslu af stjórnunarstörfum í íslenskum fjölmiðlum. Hann var lengi útvarpsmaður, auglýsingasölumaður og framkvæmdastjóri PoppTíví og stofnaði ásamt fleirum dagblaðið 24 stundir, síðar Blaðið og var þar markaðs- og auglýsingastjóri um nokkurra ára skeið.

Steinn Kári hefur undanfarin ár verið framkvæmdastjóri eigin fyrirtækja, en hyggst nú söðla um og hella sér út í fjölmiðlarekstur á nýjan leik. Hann hefur þegar störf á DV.

„Við erum mjög ánægðir með þessa ráðningu. Steinn Kári hefur einstaka starfsreynslu á þessu sviði á Íslandi og veit hvað þarf að gera til að ná árangri. Markmið okkar er að sækja fram, stækka fyrirtækið og finna ný tækifæri og ráðning hans er liður í því,“ segir Þorsteinn Guðnason stjórnarmaður DV.

„Þetta er frábært tækifæri og ég hlakka mikið til,“ segir Steinn Kári. „Ég hef haft mjög gaman að eigin rekstri undanfarin ár, en ég er alinn upp á fjölmiðlum og rekstur þeirra er í blóðinu. Ég hef mikla trú á þessu verkefni, er sannfærður um að hægt er að stórefla DV á pappír og á vefnum og hlakkar til að takast á við þetta verkefni með góðum samstarfsmönnum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×