Erlent

Steinmeier segir Erdogan vera að stofna árangri Tyrklands í hættu

Atli Ísleifsson skrifar
Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, flutti innsetningarræðu sína í þýska þinginu í morgun.
Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, flutti innsetningarræðu sína í þýska þinginu í morgun. Vísir/AFP
Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, segir Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta vera að stofna þeim árangri sem Tyrkir hafi náð á síðustu árum í hættu og eyðileggja samskipti landsins við bandamenn sína.

Samskipti tyrkneskra stjórnvalda og stjórnvalda í fjölda aðildarríkja ESB hafa versnað til muna á síðustu vikum eftir að tyrkneskum ráðherrum var meinað að koma fram á fjöldafundum í öðrum Evrópuríkjum í tengslum við fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar í Tyrklandi.

Steinmeier var nýverið kjörinn nýr forseti Þýskalands og nýtti innsetningarræðu sína í morgun til að gagnrýna Erdogan og sagði Þjóðverja hafa áhyggjur af gangi mála í Tyrklandi. Sagði hann að árangurinn sem Tyrkir hafi náð á síðustu árum ætti á hættu að verða að engu.

„Erdogan forseti, þú ert að stofna öllu því í hættu sem þú, ásamt öðrum, hefur byggt upp,“ sagði Steinmeier.

Fulltrúar Tyrklandsstjórnar hafa ítrekað sakað þýsk stjórnvöld um nasisma á síðustu dögum með því að banna tyrkneskum ráðherrum að koma fram á fjöldafundum í ákveðnum aðildarríkjum ESB þar sem fjöldi tyrkneskra ríkisborgara búa.

„En hættu þessum hræðilega nasistasamanburði! Ekki slíta á tengslin við þá sem vilja eiga samstarf við Tyrkland! Virtu réttarríkið og frelsi fjölmiðla og fréttamanna! Og slepptu Deniz Yücel,“ sagði Steinmeier, en þýsk-tyrkneskur fréttmaður Yücel sem er nú í haldi tyrkneskra yfirvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×