Erlent

Steinem hvetur til friðar milli stríðandi Kóreuþjóða

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Alþjóðlegur baráttuhópur fyrir kvenréttindum ferðaðist yfir hervarin landamæri Suður-Kóreu og Norður-Kóreu í dag í því skyni að vekja athygli á nauðsyn friðar á milli þessara tveggja þjóða. CNN greinir frá.

Hópurinn sem telur um þrjátíu manns er kallaður WomenCrossDMZ. DMZ stendur fyrir hlautlaust belti í stríði eða svæði þar sem engin hernaðarátök fara fram líkt og er raunin um landamærin milli þessara tveggja fyrrnefndu landa.

Í hópnum er kvenréttindakonan og feministinn Gloria Steinem og tveir nóbelsverðlaunahafar, þær Mairead Maguire frá Norður-Írlandi og Leymah Gbowee frá Líberíu.

Ræddu við konur í Norður-Kóreu

Í morgun kom rúta og sótti hópinn frá hlið Norður-Kóreu og ferjaði þær þvert yfir hlutlausa beltið sem hefur aðskilið löndin í yfir hálfa öld.

„Okkur líður vel með þetta og við erum jákvæðar fyrir því að hafa skapað för yfir hlutlausa beltið með friði og sáttum sem hefur verið sögð óhugsandi,“ sagði Gloria Steinem eftir að hópurinn kom til Suður-Kóreu. 

Á meðan á dvöl þeirra í Norður-Kóreu stóð ræddu þær við konur í landinu við hin ýmsu tilefni. 

„Við getum lært með pappír og skjám,“ sagði Steinem. „En hæfileiki okkar til þess að skilja, ekki bara læra, verður til þegar við erum saman og getum sett okkur tilfinningalega í spor annarra.“ 

Hópurinn vill hvetja konur til þess að vera virkari í friðarviðræðunum og kalla eftir því að fjölskyldur sem hafa verið aðskildar síðan í Kóreustríði verði sameinaðar á ný. 

Förin harðlega gagnrýnd

För hópsins hefur verið gagnrýnd af öðrum baráttuhópum en WomenCrossDMZ er sagður líta yfir stór vandamál sem konur búa við undir einræðisstjórn Kim Jong Un. 

„Það er alveg smánarlegt að þær skuli algjörlega hunsa þjáningar íbúa Norður-Kóreu, sérstaklega norður-kóreskra kvenna,“ sagði Suzanne Scholte, formaður Friðarsamtaka Norður-Kóreu. „Ef þetta skipti þær raunverulega einhverju máli myndu þær ferðast yfir landamæri Norður-Kóreu og Kína sem er miklu hættulegri núna heldur en hlutlausa beltið milli Suður-Kóreu og Norður-Kóreu.“ 

Þetta sagði hún fyrir viðburðinn og vísar í fregnir þess efnis að norður-kóreskar konur sem fara frá heimalandi sínu til Kína verði oft fórnarlömb mansals, séu sendar til vinnu í klámiðnaðinum eða seldar sem brúðir til bænda í afskekktum héruðum í Kína.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×