Innlent

Stefnumótasérfræðingur úr Þorlákshöfn kennir japönskum körlum að tala við konur

Guðrún Ansnes skrifar
Gunnar Torfi segir japanska karla skelfilega hrædda við að tala við konur.
Gunnar Torfi segir japanska karla skelfilega hrædda við að tala við konur. Fréttablaðið/Stefán
„Það er hvergi eins mikið af einhleypu fólki í heiminum og í Japan. Þar er tíðni fólksfjölgunnar gríðarlega lág,“ segir Gunnar Torfi Guðmundsson sem undanfarin tvö ár hefur staðið fyrir sérlegu stefnumótanámskeiði í Tokyo. Námskeiðið er fyrir karla á aldrinum þrjátíu til sextíu ára, sem langar að bjóða konum á stefnumót .

Námskeiðið bar heitið The Warrior Within og fór fram innan veggja Modern Mistery School Japan.

„Ég var að kenna þeim að byrja samtal, án þess að koma út sem einhverskonar öfuguggi. Í japan er það þannig að menn eiga afar erfitt með að fara á stefnumót, vegna þess að það einfaldlega talar ekki saman. Þetta er mikið og stórt vandamál,“ segir Gunnar.

Máli sínu til stuðnings bendir Gunnar á svokallaða „Girl bari“ þar sem seldir séu rándýrir kokteilar sem menn kaupi og fái í kaupbæti stelpu til að tala við.

„Þetta er ekki strippstaður eða vændi. Heldur snýst þetta um að tala saman. Eins eru svokölluð kúrkaffihús líka vinsæl, en þangað koma menn og borga konum fyrir að kúrast í þeim og tala krúttlega við þá. Þetta er heilmikill iðnaður,“ segir Gunnar.

Að sögn Gunnars gekk námskeiðið sem hann stóð fyrir á vegum skólans gríðar vel. Kennslan hafi bæði verið í formi fyrirlestra og ferða á vettvang.

„Þá komu þeir með mér og fylgdust með hvernig ég talaði við konur án þess að það væri eitthvað vandræðalegt. Þetta snýst ekki um að henda þeim af stað og segja þeim að tala við konur. Þetta er flóknara. Menn byrja hægt og vinna sig áfram.“ Þá segir Gunnar japönsku nemana einkar samviskusama sem sinntu heimanámi og öllum æfingum vel.

Gunnar segir að þótt vandamálið sé stórt séu Japanir alls ekki duglegir að stunda Tinder, ólíkt íslendingum. Hann er þó ekki hrifinn af notkun kynbræðra sinna á forritinu.

„Ég myndi samt sem áður ráðleggja íslenskum karlmönnum að losa sig við Tinder,“ segir Gunnar

„Ég sé ákveðna tengingu milli þeirra japönsku og íslenskra karla á stefnumótamarkaðinum. Það er í lagi að hella sig fullan á bar en ekki í lagi að tala við konu í Hagkaup. Við þurfum vissulega að endurforrita hugsunarháttinn hérna heima líka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×