Erlent

Stefnt að því að ljúka líkflutningum til Hollands fyrir helgi

Heimir Már Pétursson skrifar
Herflugvélar flytja 74 kistur með líkamsleifum Malaysian flugvélarinnar til Hollands í dag. Ekki víst að hægt verði að bera kennsl á alla sem voru um borð. Rannsókn hafin á flugritum.
Herflugvélar flytja 74 kistur með líkamsleifum Malaysian flugvélarinnar til Hollands í dag. Ekki víst að hægt verði að bera kennsl á alla sem voru um borð. Rannsókn hafin á flugritum. vísir/afp
Stefnt er að því að ljúka flutningi líkamsleifa þeirra sem fórust með Malaysian flugvélinni fyrir viku til Hollands á morgun. Langan tíma getur tekið að bera kennsl á alla þá sem voru um borð.

Í gær fluttu tvær Herkúles flugvélar hollenska og ástralska hersins fjörtíu kistur frá Kharkiv í Úkraínu til Eindhoven í Hollandi og var mikil viðhöfn höfð á báðum stöðum. Vilhjálmur Hollandskonungur og Maxíma drotting voru viðstödd komu kistanna til Hollands í gær ásamt Mark Rutte forsætisráðherra, til að sýna hinum látnu og aðstandendum þeirra virðingu.

En nú tekur grár raunveruleikinn við. Í dag er áætlað að tvær herflugvélar flytji 74 kistur til Hollands. Esther Naber talskona hollensku rannsóknarnefndarinnar segir að vonandi takist að ljúka þessum flutningum á morgun eða í síðasta lagi á laugardag.

Naber segir ómögulegt að áætla hvað líkamsleifarnar sem safnað hefur verið saman tilheyra mörgu fólki. Fjöldi poka úr kælivögnum lestarinnar þar sem líkamsleifunum var safnað saman eða fjöldi kista sem fluttar séu til Hollands segi ekkert um fjölda þess fólks sem þær tilheyri. Bæði sé um að ræða lík og líkamsparta.

„Það hljómi ömurlega og er ákaflega sorglegt, en þannig er raunveruleikinn,“ segir Naber.

Það verði því ekki hægt að segja fyrr en kennslateymið ljúki störfum sínum, hversu marga tekst að bera kennsl á. Vonandi takist að bera kennsl á alla þannig að aðstandendur geti hvatt ástvini sína en á þessari stundu sé ekki hægt að lofa því.

Rannsókn er nú þegar hafin á flugritum flugvélarinnar in Fanbourough í Bretlandi. En ef bæði hljóð- og tækniriti eru óskemmdir geta þær upplýsingar sem þeir söfnuðu reynst mjög mikilvægar við að upplýsa hvað raunverulega gerðist hinn örlagaríka dag, fimmtudaginn 17 júlí, yfir austurhluta Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×