Innlent

Stefnt að stöðugleikasáttmála í dag

Fundað í Karphúsinu.
Fundað í Karphúsinu. MYND/Fréttablaðið/Stefán

Stefnt er að undirritun stöðugleikasáttmálans svokallaða í dag en stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðar hafa fundað stíft síðustu daga og vikur. Morgunblaðið greinir frá því að undirritun fari að óbreyttu fram klukkan eitt í dag. Um tíma í gær leit út fyrir að fulltrúar BSRB myndu heltast úr lestinni en aðilar höfðu tekist á um um hlutfall skatta og niðurskurðar í sáttmálanum.

Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir í Fréttablaðinu í dag að aldrei hafi staðið til að opinberir starfsmenn segðu sig frá viðræðunum. Þeir hafi hins vegar ekki viljað binda hendur ríkisstjórnarinnar til framtíðar með því að ákveða fyrir fram hlutfall skatta og tilfærslna. Morgunblaðið segir að opinberir starfsmenn hafi verið ósáttir við að hlutfall skattheimtu yrði hámarkað við 45 prósent fyrir árið 2011 og að niðurskurður ríkisútgjalda næmi 55 prósentum.

Að loknum fundi í stjórnarráðinu þar sem sáttatillaga var lögð fram af hálfu forsætisráðherra hittust menn á ný í Karphúsinu að sögn blaðsins til þess að fínpússa samninginn sem stendur til að undirrita í dag. Sáttatillagan verður þó að sögn Fréttablaðsins kynnt í baklandi opinberra starfsmanna áður en til þess kemur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×