Erlent

Stefnir í sigur stjórnarflokksins í Eistlandi

Atli Ísleifsson skrifar
Taavi Roivas er 35 ára gamall og yngsti leiðtogi allra aðildarríkja ESB.
Taavi Roivas er 35 ára gamall og yngsti leiðtogi allra aðildarríkja ESB. Vísir/AFP
Fyrstu tölur benda til þess að Umbótaflokkurinn, hægriflokkur Taavi Roivas forsætisráðherra, hafi unnið sigur í þingkosningum í Eistlandi sem fram fóru í dag.

Í frétt Reuters segir að ótti fólks við að stjórnvöld í Rússlandi fari að skipta sér af innanríkismálum Eistlands hafi einkennt kosningabaráttuna að þessu sinni. Er það afleiðing þess að Rússar innlimuðu Krímskaga á síðasta ári.

Fylgi flokks Roivas mælist 29,2 prósent, nú þegar tveir þriðjuhlutar atkvæðanna hafa verið taldir. Flokkurinn sigraði kosningarnar 2011 þegar hann hlaut 28,6 prósent atkvæða.

Helsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Miðflokkurinn, er annar stærsti flokkur landsins, en samkvæmt nýjustu tölum hlýtur hann 21 prósent atkvæða, samanborið við 23,3 prósent árið 2011.

Miðflokkurinn er hlynntur nánari tengslum Eistlands og Rússlands. Tölur úr nokkrum af helstu vígjum Miðflokksins hafa enn ekki borist, svo búast má við að atkvæðahlutfall flokksins muni eitthvað hækka þegar líður á talningu.

Roivas þykir líklegastur til að leiða áfram ríkisstjórn, jafnvel þó að Miðflokkurinn muni á endanum mælast stærstur flokka. Aðrir flokkar hafa útilokað stjórnarþátttöku með Miðflokknum.

Roivas er 35 ára gamall og yngsti leiðtogi allra aðildarríkja ESB.

1,3 milljón manna búa í Eistlandi og tala um fjórðungur íbúa með rússnesku að móðurmáli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×