Innlent

Stefnir í einn fallegasta daginn á skíðasvæðum landsins

Birgir Olgeirsson skrifar
Í Bláfjöllum er opið frá klukkan 10 – 17 og segir umsjónarmaður svæðisins að það stefni í einn fallegasta dag ársins.
Í Bláfjöllum er opið frá klukkan 10 – 17 og segir umsjónarmaður svæðisins að það stefni í einn fallegasta dag ársins. Vísir/Vilhelm
Það stefnir í flottan dag á skíðasvæðum landsins ef marka má pósta frá umsjónarmönnum skíðasvæðanna.

Opið er í Tungudal í Skutulsfirði, skíðasvæði Ísafjarðarbæjar, á milli klukkan 10 og 16 í dag og á Seljalandsdal frá klukkan 10. Er færið sagt gott og veðrið flott, logn og hiti rétt undir frostmarki.

Í Hlíðarfjalli á Akureyri, er opið frá klukkan 10 til 16. Klukkan átta í morgun var logn og sjö stiga frost. Skíðaskóli fyrir börn er í dag frá 10 til 14 og er hann einnig alla vikuna frá 11 til 13.

Á skíðasvæðinu á Siglufirði verður opið frá klukkan 10 til 16. Er veðrið þar sagt mjög gott, norðan gola, frost 4 – 7 stig og lítilsháttar éljagangur. Færið er troðinn þurr snjór en búið er að troða sjö skíðaleiðir.

Skíðasvæði Tindastóls verður opið í dag frá klukkan 11 til 16. Veðrið er sagt frábært, á níunda tímanum í morgun var austanátt, einn metri á sekúndu, níu gráðu frost og léttskýjað. Er færið sagt gott.

Á Dalvík er skíðasvæðið opið frá 10 til 16. Hið besta skíðaveður og allar brautir troðnar.

Í Bláfjöllum er opið frá klukkan 10 – 17 og segir umsjónarmaður svæðisins að það stefni í einn fallegasta dag ársins. Klukkan 7 í morgun var 1 – 3 metrar á sekúndu, sunnan átt, og um fjögurra stiga frost.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×