Innlent

Stefnir í átján stiga hita sunnanlands

Atli Ísleifsson skrifar
Veðurspáin er fín fyrir daginn, sunnanlands
Veðurspáin er fín fyrir daginn, sunnanlands Óskar P. Friðriksson
„Það lítur mjög vel út í dag fyrir Suður- og Vesturland og hitinn er kominn upp í fimmtán gráður á nokkrum stöðum,“ segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofunni.

Hún segir að búist sé við björtu veðri og jafnvel inn til landsins á Norðurlandi vestra. „Þar er líka búið að létta svolítið til. Norðanlands og austanlands er skýjað og lítilsháttar væta af og til.“

Helga segir að á morgun verði heldur hægari vindur, norðaustlæg og breytileg átt og dálitlar skúrir á víð og dreif, sérstaklega inn til landsins síðdegis.

„Á Eldhrauni, Sámsstöðum og Önundarhorni hefur hitinn þegar farið upp í fimmtán stig í dag, þannig að mesti hitinn er á Suðurlandi. Við spáum að hann fari upp í átján stig í dag. Fyrir norðan er svalara. Það eru ekki nema sjö, átta gráður á annesjum og fer kannski upp í tíu,“ segir Helga.

Á morgun gerir spáin ráð fyrir að ekki verði alveg jafn heitt á Suðurlandi og í dag, en hlýrra fyrir norðan. „Þar eru meiri líkur á að það sjáist aðeins til sólar inn á milli þó að það geti komið stöku skúrir. Á mánudaginn má svo búast við skúrum eiginlega um allt land. Það eru mestar líkur á að Vestfirðirnir sleppi. Það gætu orðið nokkuð góðar dembur síðdegis.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×