Innlent

Stefna að opnun fjögurra nýrra kafla

Stefan Füle
Stefan Füle
Stefnt er að því að opna fjóra nýja samningskafla í aðildarviðræðum Íslands og ESB á ríkjaráðstefnu í lok mánaðarins. Þar verður einnig leitast við að loka sem flestum köflum. Þá munu viðræður í lykilköflum, til dæmis fiskveiðum og landbúnaði, hefjast í ár. Þegar hafa ellefu kaflar af 35 verið opnaðir og átta þeirra hefur þegar verið lokað.

Þetta kom fram í máli Stefan Füle, stækkunarmálastjóra ESB, og Nicolai Wammen, Evrópumálaráðherra Dana, á Evrópuþinginu á miðvikudag þar sem ályktun þingsins vegna stöðu viðræðnanna var afgreidd.

Báðir voru þeir bjartsýnir um að viðræður myndu ganga vel og fljótt fyrir sig, þó þess yrði gætt að huga betur að vönduðum vinnubrögðum en hraðri afgreiðslu.

Í umræðunum sagði Füle að sambandið væri tilbúið til að taka tillit til „sérstöðu og væntinga Íslands“ í viðræðunum. Þó innan grundvallarreglna sambandsins.

Ályktunin var rædd á Alþingi í gær þar sem til tals kom kafli um makríldeilur Íslands við ESB og Noreg. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra áréttaði að ekkert yrði gefið eftir í þeim viðræðum. „Af hálfu okkar er ekki líðandi að ESB setji fram einhver skilyrði um makrílinn í samningaviðræðum almennt um aðildarferlið,“ sagði Jóhanna.- þj



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×