Handbolti

Stefán Rafn: Var búinn að segja nei við mörgum tilboðum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stefán Rafn hefur verið í herbúðum Löwen frá 2012.
Stefán Rafn hefur verið í herbúðum Löwen frá 2012. vísir/getty
„Þetta byrjaði fyrir um tveimur mánuðum og tók sinn tíma þar sem ég átti eitt ár eftir af samningi hérna,“ sagði Stefán Rafn Sigurmannsson um aðdraganda vistaskipta hans frá Rhein-Neckar Löwen til Aalborg sem Vísir greindi frá fyrr í dag.

Stefán skrifaði undir þriggja ára samning við danska liðið og hlakkar til dvalarinnar hjá Aalborg, þar sem hann verður í mun stærra hlutverki en hjá Löwen.

„Mér leist mjög vel á þetta strax frá byrjun og var mjög spenntur fyrir þessu enda frábært lið. Ég talaði við þá hérna og spurði hvort ég gæti fengið mig lausan fyrir þetta,“ sagði Stefán.

Hann hefur verið varamaður fyrir Uwe Gensheimer hjá Löwen undanfarin ár en sá þýski er á förum til Paris Saint-Germain eftir tímabilið. Til að fylla hans skarð var landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson fenginn aftur til Löwen. Þrátt fyrir þetta segir Stefán að þýska liðið hafi viljað halda honum.

„Þeir voru mjög hjálpsamir og skildu mína stöðu en auðvitað vildu þeir halda mér og reyndu það. En ég vildi fara. Þarna fæ ég mikinn spiltíma og að spila í vörn, bæði í tvistinum og eitthvað í þristinum,“ sagði Stefán er hugsaður sem fyrsti kostur í stöðu vinstri hornamanns.

Stefán Rafn hefur leikið 54 landsleiki.vísir/valli
Stefán segir að það hafi verið áhugi á honum víða frá en Aalborg heillaði hann mest.

„Það er búinn að vera mikill áhugi frá öðrum liðum. Síðan kom þetta inn og mér fannst það mjög spennandi. Ég var búinn að segja nei við mörgum öðrum tilboðum,“ sagði Stefán sem segir þetta vera mikilvæg skref á sínum ferli.

Tveir aðrir Íslendingar koma til Aalborg í sumar; Aron Kristjánsson, sem tekur við þjálfun liðsins, og Arnór Atlason, samherji Stefáns í íslenska landsliðinu. Stefán þekkir Aron vel en hann steig sín fyrstu skref í meistaraflokki Hauka undir hans stjórn. Seinna meir spilaði Stefán svo undir stjórn Arons í landsliðinu. Hann hlakkar til að vinna með sínum gamla lærimeistara.

„Ég á honum mikið að þakka fyrir minn feril. Ég byrjaði ungur hjá honum í handbolta og hann gaf mér fyrsta tækifærið í meistaraflokki og hafði trú á mér. Ég er hrikalega glaður að fá að spila aftur fyrir Aron, enda er hann frábær þjálfari og ég ber mikla virðingu fyrir honum,“ sagði Stefán og bætti því við að reynsla Arnórs myndi eflaust nýtast Aalborg mjög vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×