Handbolti

Stefán Rafn: Gaui siðar mig til

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Stefán Rafn Sigurmannsson fagnar góðum sigri með Rhein-Neckar Löwen.
Stefán Rafn Sigurmannsson fagnar góðum sigri með Rhein-Neckar Löwen. Vísir/Getty
Stefán Rafn Sigurmannsson hefur ákveðið að vera í það minnsta eina leiktíð í viðbót hjá Rhein-Neckar Löwen. Hann hefur barist við Uwe Gensheimer um mínútur á vellinum síðustu ár en á næsta tímabili fær hann Guðjón Val Sigurðsson á æfingar með sér. Stefán segir að það eigi eftir að þroska sig.

„Ég hef fengið að spila meira upp á síðkastið og þá kemst maður í meiri takt. Þá fer þetta allt að ganga betur,“ segir hornamaðurinn Stefán Rafn Sigurmannsson en hann átti stórleik fyrir lið sitt Rhein-Neckar Löwen í Meistaradeildinni gegn Kolding á sunnudag.

Stefán Rafn skoraði sjö glæsileg mörk í flottum sigri Löwen. Hann var markahæsti leikmaður vallarins og valinn í lið umferðarinnar í deildinni. Stefán Rafn hefur mátt gera sér það að góðu síðustu ár að sitja mikið á bekknum og horfa á Uwe Gensheimer spila.

„Þjálfarinn hefur verið að dreifa þessu meira á okkur Uwe eftir EM. Hann hefur rúllað þessu meira en áður og það er jákvætt. Mér hefur tekist að nýta tækifærin vel. Það vilja allir alltaf spila og við Uwe erum góðir vinir og hjálpum hvor öðrum eins og við getum. Það er enginn skítamórall í gangi.“



Vísir/Getty
Mun gefa allt í þetta

Fyrir jól var Stefán Rafn að skoða sín mál. Hvort hann ætti að fara frá félaginu eða halda áfram. Hann er búinn að taka ákvörðun.

„Ég ætla að taka slaginn áfram og vonast til að fá að spila áfram. Ég hef sýnt og sannað að ég get það vel,“ segir Stefán Rafn en hefur hann aldrei verið nálægt því að fara?

„Jú, það hefur komið fyrir. Það koma oft fyrirspurnir og tilboð en mér líður mjög vel hjá félaginu og ég vil ekki fara. Ég mun halda áfram að gefa allt í þetta. Ég kom hingað 2012 og tel mig hafa bætt mig mikið. Við erum með frábæran kraftþjálfara sem hefur hjálpað mér mikið. Ég vil ekki kasta frá mér þeirra flottu aðstöðu og þjálfurum sem eru að hjálpa mér. Auðvitað skiptir máli að spila líka en þetta er allt að koma. Markmiðið er að verða númer eitt.“

Búinn að tala við Guðjón Val

Gensheimer fer frá félaginu næsta sumar en samkeppnin hjá Stefáni minnkar samt ekkert fyrir vikið. Guðjón Valur Sigurðsson gengur nefnilega í raðir félagsins næsta sumar. Íslenski landsliðsfyrirliðinn er nú ekki beint þekktur fyrir að vilja sitja mikið á bekknum.

„Það er alveg rétt. Hann vill spila eins og allir aðrir. Við erum búnir að tala aðeins saman um þetta og ég held að við eigum eftir að geta unnið vel saman. Auðvitað ráðum við því ekkert hver er að spila en mér líst vel á að vinna með honum. Við munum taka vel á því saman hérna,“ segir Stefán Rafn jákvæður enda telur hann að það geti skilað sér miklu að vera í liði með Guðjóni.

„Ég get lært helling af honum. Maðurinn er kominn með 500 mörk í Meistaradeildinni og búinn að vera í handboltanum í 70 ár. Enda að verða áttræður. Ég ætti að geta lært eitthvað af slíkum manni,“ segir Stefán Rafn léttur.

„Á landsliðsæfingum hefur hann hjálpað mér mikið. Sagt mér til og svona. Ég held að það geti þroskað mig mikið að taka eitt ár með honum. Hann æfir hrikalega mikið og það verður frábært fyrir mig að stíga inn í það prógramm með honum og taka á því af fullu. Eftir það lærdómsríka ár get ég svo tekið stöðuna á ný,“ segir Hafnfirðingurinn en hann verður samningslaus eftir fyrsta árið með Guðjóni.

Vísir/Getty
Aron mælti með þessu

Stefán Rafn og Aron Pálmarsson eru bestu vinir. Guðjón Valur veitti Aroni stuðning og leiðsögn er þeir voru saman hjá Kiel og tekur nú að sér að skóla hinn vininn aðeins til á æfingum sem og í lífinu.

„Ég var búinn að ræða það við Aron sem mælti með þessu. Gaui getur því siðað mig aðeins til líka. Þá verðum við vinirnir á svipuðum stað í lífinu.“

Tveir heimavellir

Rhein-Neckar Löwen spilar heimaleiki sína í deildinni iðulega í SAP Arena í Mannheim en hefur verið að spila meistaradeildarleiki í Fraport Arena sem er í Frankfurt. Stuðningsmenn liðsins þurfa að taka á sig aðeins lengra ferðalag fyrir þá leiki og ekki alveg sama mæting og á deildarleikjum.

„Þjóðverjarnir eru svo rosalegir. Þeir kaupa ársmiða á leikina í deildinni og eru búnir að reikna út hvað veturinn á að kosta. Það má svo ekkert hnika því til. Það koma því færri á þessa leiki og þá förum við í minni höll fyrir meistaradeildina. Það byggist upp fín stemning í þessu minna húsi og við kunnum því ágætlega að spila þar,“ segir Stefán Rafn Sigurmannsson.

Vísir/Getty

Tengdar fréttir

Stefán Rafn markahæstur í sigri á Kolding

Stefán Rafn Sigurmannsson var stjarnan í fjögurra marka sigri Rhein-Neckar Löwen á Kolding í Meistaradeildinni í dag en eftir að hafa verið fimm mörkum undir í fyrri hálfleik náðu leikmenn Löwen að snúa leiknum sér í hag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×